Reiðarslag fyrir BBC
Hér skal engu spáð um hver verður endapunktur þessa máls. Sumir telja að það kunni að verða eitt stærsta meiðyrðamál sögunnar.
Áhorfendur BBC News sjónvarpsstöðvarinnar sem sést í myndlykli Símans urðu miðvikudaginn 12. júlí vitni að því hvernig frétt sem snerti starfsmann stöðvarinnar sjálfrar ýtti öllu öðru efni til hliðar í langan tíma.
Í fjóra daga hafði BBC verið í „hers höndum“ vegna fréttar í götublaðinu The Sun um að þjóðkunnur fréttaþulur stöðvarinnar sætti ámæli foreldra fyrir að hafa greitt barni þeirra 35.000 pund fyrir ósæmileg samskipti, fjármunirnir hefðu gert barnið að ofurseldum fíkniefnaneytanda og þrátt fyrir kvartanir gagnvart yfirstjórn BBC í tvo mánuði hefði hún ekkert aðhafst. Þjóðkunni þulurinn var ekki sakaður um lögbrot heldur var reiði vegna oflætis og aðgerðaleysis BBC undirrót fréttarinnar.
Sólarhringum saman vissi enginn hver þjóðkunni þurlurinn var. Spenna magnaðist innan BBC og nokkrir þjóðkunnir starfsmenn ríkisútvarpsins tilkynntu opinberlega að þeir væru ekki til umræðu í The Sun og einnig heyrðust raddir um að ritstjórn blaðsins væri svo illa við BBC að þetta kynni allt að vera tilbúningur.
Huw Edwards.
Nafnleyndinni var svipt af fréttaþulnum miðvikudaginn 12. júlí með yfirlýsingu Vicky Flind, eiginkonu hans. Hún sagði að eiginmaður sinn, Huw Edwards, væri nú undir læknishendi á sjúkrahúsi vegna „alvarlegs geðræns heilsubrests“. Á þessari stundu væri ekki unnt að segja hve lengi hann yrði á sjúkrahúsinu.
Hún sagði að hann hefði fyrst heyrt um ásakanirnar á hendur sér fimmtudaginn 6. júlí og hann ætlaði að svara því sem sagt væri um sig þegar hann hefði heilsu til þess.
Allir sem horfa á BBC News þekkja Huw Edwards (61 árs) af skjánum. Hann var kallaður á vettvang til að segja heiminum að Elísabet II. hefði andast. Í meira en áratug hefur hann verið sá fréttaþulur í sjónvarpi BBC sem fengið hefur það hlutverk að verða miðpunktur sem kynnir stærstu fréttaviðburða: konunglegra brúðkaupa, jarðarfara, krýninga og kosninga. Áður gegndi David Dimbleby þessu hlutverki hjá BBC.
Hér skal engu spáð um hver verður endapunktur þessa máls. Sumir telja að það kunni að verða eitt stærsta meiðyrðamál sögunnar. Lögregla rannsakar málið en strax 12. júlí sagðist hún ekki sjá að lögbrot hefði verið framið.
Rod Liddle, aðstoðarritstjóri The Spectator, segir í vikublaðinu sem kom út í dag (13. júlí) að hvað sem líði brotinu á opinberu siðferði snúist málið ekki síður um starfshætti innan BBC þar sem ofsahræðsla hafi gripið um sig og leitt af sér varnarstöðu og þögn um málið bæði við meðferð kvörtunarinnar innan húss og út á við gagnvart almenningi. Kvörtunarkerfið innan stöðvarinnar sé í molum, jafnvel eftir reynsluna af barnaníðingnum og BBC-starfsmanninum Jimmy Savile. Kerfið þjóni ekki þeim tilgangi að grafast fyrir um sannleikann og taka á málum í samræmi við hann heldur að þumbast við gagnvart almenningi í von um að kvörtunarmál hverfi úr sögunni sé ekkert gert í þeim.