Raunveruleikinn um Laxness
Kenningunni var hampað af fréttastofu ríkisútvarpsins. Hún þegir nú þunnu hljóði. Að neita að horfast í augu við bitran raunveruleikann, réttlætir ekki lygina.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor skrifar hvern laugardag stuttan dálk í Morgunblaðið undir samheitinu Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð. Í dag, 7. ágúst er fyrirsögnin: Hvað sögðu ráðunautarnir? Þar er vísað til ráðunauta bandaríska útgefanda Halldórs Laxness, Alfreds A. Knopfs, um miðja síðustu öld.
Hér birtist þessi fróðleiksmoli í heild því að hann snertir mál sem oftar en einu sinni hefur verið rætt hér á síðunni vegna andmæla minna við samsæriskenningu sem birtist hér fyrir um áratug um að faðir minn hafi í samvinnu við bandarísku alríkislögregluna lagt stein í götu bóka Laxness á Bandaríkjamarkaði. Hannes Hólmsteinn segir:
„Gögn úr skjalasafni bandaríska útgefandans Alfreds A. Knopfs, sem Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur hefur grafið upp og birt á Moggabloggi sínu, afsanna þá kenningu, að Bjarni Benediktsson og bandarískir erindrekar hafi í sameiningu komið í veg fyrir, að bækur Laxness yrðu gefnar út í Bandaríkjunum á dögum Kalda stríðsins. Knopf gaf Sjálfstætt fólk út 1946, enda höfðu rithöfundarnir May Davies Martinet og Bernard Smith mælt sterklega með bókinni. Hún seldist vel, eftir að Mánaðarbókafélagið, Book-of-the-Month Club, gerði hana að valbók.
Knopf lét því skoða Sölku Völku , sem til var í enskri þýðingu. Starfsmaður hans, bókmenntafræðingurinn Roy Wilson Follett, las þýðinguna, en taldi söguna standa að baki Sjálfstæðu fólki , vera hráa og ruglingslega. Ákvað Knopf að gefa bókina ekki út. Ári síðar, 1947, var honum send dönsk þýðing á Heimsljósi ásamt nokkrum köflum á ensku. Hann bar ensku kaflana undir annan starfsmann sinn, rithöfundinn Herbert Weinstock, sem kvaðst ekki hafa verið hrifinn af Sjálfstæðu fólki og taldi þetta brot úr Heimsljósi ekki lofa góðu. Tímasóun væri að skoða verkið nánar.
Í árslok 1948 var Knopf send sænsk þýðing á Íslandsklukkunni , og nú var Eugene Gay-Tifft fenginn til að meta verkið, en hann hafði þýtt talsvert úr norsku fyrir Knopf. Hann skilaði rækilegri umsögn, var hrifinn af verkinu, en taldi vafamál, að það myndi höfða til bandarískra lesenda. Ákvað Knopf að gefa bókina ekki út. Enn var Knopf send þýsk þýðing á Íslandsklukkunni haustið 1951, og taldi rithöfundurinn Robert Pick (sem var austurrískur flóttamaður) ástæðulaust að endurskoða fyrri ákvörðun.
Snemma árs 1955 var Knopf send sænsk þýðing Gerplu . Nú var bókin borin undir sænska konu, Alfhild Huebsch, sem gift var bandarískum bókmenntamanni, og lagði hún til, að henni yrði hafnað. Sagan væri góð og gæti skírskotað til norrænna lesenda, en ekki bandarískra.
Þremur árum síðar las einn ráðunautur Knopfs, Henry Robbins, enska þýðingu Gerplu, og vildi hann líka hafna bókinni, enda væri hún misheppnuð skopstæling á Íslendinga sögum.“
Höfundar samsæriskenningarinnar um hvers vegna fjaraði undan Laxness á bandarískum bókamarkaði í kringum 1950 þegja nú þunnu hljóði. Kenningunni var hampað af fréttastofu ríkisútvarpsins. Hún þegir nú þunnu hljóði. Að neita að horfast í augu við bitran raunveruleikann, réttlætir ekki lygina.