15.1.2024 9:50

Raunveruleikanum sjónvarpað

Með öndina í hálsinum fylgdumst við með því um hádegisbilið þegar tók að gjósa í beinni útsendingu sunnan varnargarðsins, skammt frá efstu húsum í Grindavík og hraun streymdi í áttina að þeim.

Hér var í gær sagt frá björgun tækja við hraunjaðarinn skammt frá Grindavík. Atburðinn mátti sjá í beinni útsendingu frá gosinu sem hófsf klukkan 07.57 í gærmorgun (14. janúar).

Á mbl.is mátti síðar lesa það sem Hjálmur Sigurðsson, framkvæmdastjóri mannvirkja og staðarstjóri hjá Ístaki við gerð varnargarða á Reykjanesskaga, hafði um björgunina að segja:

Þeir voru átta á staðnum. Þrír sem stjórnuðu aðgerðinni en fimm sem fóru til skiptis og björguðu á annan tug vinnuvéla, meðal annars stærstu jarðýtu landsins, í fjórum ferðum – sumir fóru tvisvar inn á hættusvæðið. Tveir björgunarsveitarmenn stóðu vakt á svæðinu og höfðu gasmæla.

Þrír menn voru sendir inn á hættusvæðið í einu í samráði við vaktmennina. Í fyrstu var ætlunin að sækja aðeins þrjár vélar næst hrauninu. Eftir að þær björguðust áfallalaust var haldið áfram og sótti hópurinn 14 eða 15 tæki alls í þessum fjórum ferðum. Verðmæti þeirra telur Hjálmar um 800 m. kr. en að ekki hafi verið horft í það heldur að komast að tækjunum sem hópurinn þurfti ef bjarga ætti Grindavík.

Gildi varnargarðanna sannaðist á fyrsta degi gossins núna og var haldið áfram gerð þeirra við Grindavík í gær.

Með öndina í hálsinum fylgdumst við með því um hádegisbilið þegar tók að gjósa í beinni útsendingu sunnan varnargarðsins, skammt frá efstu húsum í Grindavík og hraun streymdi í áttina að þeim. Að morgni mánudagsins 15. janúar gaus ekki lengur þar en þrjú hús höfðu orðið hrauni og eldi að bráð.

20240114-173803-L-6000x4000maMette Frederiksen forssætisráðherra stjónar níföldu húrrahrópi fyrir Friðriki 10. á svölum Kristjánsborgarhallar.

Þeir sem þótti nóg um að fylgjast með náttúruhamförunum við og í Grindavík gátu farið á rás danska ríkissjónvarpsins og fylgst með hátíðarhöldunum í Kaupmannahöfn þar sem Margrét II. afsalaði sér formlega völdum til sonar síns sem varð Friðrik 10.

Sýnd var upptaka úr ríkisráðinu þar sem drottning ritaði undir skjöl til staðfestingar afsalinu, reis á fætur og bauð syni sínum að setjast í sæti sitt, sonarsonur hennar rétti henni staf hennar, hún bað Guð að vernda kónginn og hvarf af vettvangi.

Síðan gekk kóngurinn út á svalir Kristjánsborgarhallar þar sem hann táraðist við hyllingu tuga þúsunda sem höfðu safnast saman fyrir framan höllina.

Mette Frederiksen forsætisráðherra las þrisvar tilkynningu um að Margrét II. hefði sagt af sér og Friðrik 10. væri kóngur, síðan stjórnaði hún níföldu húrrahrópi. Allt fór þetta fram með einföldum og látlausum glæsibrag.

Mette Frederiksen hefur gegnt mikilvægu hlutverki á þessum merku tímamótum. Hún sagði í nýársávarpi sínu að Margrét II. hefði snúið sér til fylgis við konungdæmið frá því að vera lýðveldissinni í samræmi við stefnu Jafnaðarmannaflokksins. Síðan hefur forsætisráðherrann einnig sagt skilið við þá stefnu jafnaðarmanna að þiggja ekki orður, heiðursmerki, úr hendi þjóðhöfðingjans. Hún hefur með öðrum orðum jarðað lýðvelisstefnu Jafnaðarmannaflokksins. Aðeins Enhedslisten, lengst til vinstri á þingi, er andvígur konungdæminu, segir það arfleifð einveldisins.