30.10.2023 9:59

Rasisminn í Verkamannaflokknum

Í raun er ótrúlegt að leiðtogi vinstri flokks í nágrannalandi okkar telji sig knúinn til að kveða svona fast að orði um rasisma og taka af allan vafa um að hver sem gerist sekur um hann sé brottrækur úr flokknum.

Jeremy Corbyn tilkynnti í apríl 2020 að hann mundi hætta sem leiðtogi breska Verkamannaflokksins. Fyrir afsögnina hafði hann verið sakaður um að beita sér ekki af nægilegri hörku gegn gyðingahatri innan flokksins.

Afsögn Corbyns var í beinu framhaldi af því að nefnd jafnréttis og mannréttinda, Equality and Human Rights Commission (EHRC), komst að þeirri niðurstöðu að Verkamannaflokkurinn hefði brotið jafnréttislög við afgreiðslu á kvörtunum vegna gyðingahaturs innan og í nafni flokksins. EHRC taldi að innan flokksins hefði ríkt „menning refsileysis“ gagnvart gyðingahatri og sjálfur hefði Corbyn farið „fyrirlitlegum“ orðum um efnið.

_130517115_gettyimages-1243545696Keir Starmer, leiðtogi breska Verkamannaflokksins.

Keir Starmer tók við sem leiðtogi Verkamannaflokksins eftir Corbyn. Hann hefur síðan reynt að hreinsa stimpil gyðingahaturs af flokknum. Í október 2020 greip hann meðal annars til þess ráðs að reka Jeremy Corbyn úr flokknum þegar hann neitaði að samþykkja niðurstöður rannsóknarinnar á vegum EHRC.

Starmer hefur stofnað til samtala við forystumenn samtaka gyðinga í Bretlandi og telja þeir að mál horfi á ýmsan hátt til betri vegar innan Verkamannaflokksins. Í flokknum sætir Starmer hins vegar gagnrýni frá hópum yst til vinstri eins og The Socialist Campaign Group, baráttuhópi sósíalista, sem segir að Starmer hafi skapað „andrúmsloft ótta og ógnar“ í flokknum. Momentum-hópurinn sem varð til í kringum Corbyn innan flokksins segir að Starmer hafi „hreinsað vinstrisinna úr flokknum“.

Til marks um hve harkalega Keir Starmer tekur á gyðingahatri má vitna í þessi orð hans í neðri málstofu breska þingsins fyrr á þessu ári, 2023:

„Gyðingahatur er níðingslegt og andstyggilegt dæmi um rasisma. Slíkt hatur á hvergi heima í þjóðfélagi okkar og gegn því hatri mun Verkamannaflokkurinn ávallt berjast. Innan flokks okkar er gyðingahatur alls ekki þolað og við munum ekki hika við að reka hvern þann úr flokknum sem gerist sekur um það.“

Í raun er ótrúlegt að leiðtogi vinstri flokks í nágrannalandi okkar telji sig knúinn til að kveða svona fast að orði um rasisma og taka af allan vafa um að hver sem gerist sekur um hann sé brottrækur úr flokknum.

Starmer veit sem er að takist honum að minnsta kosti ekki að skapa þá ímynd að flokkur hans þurrki af sér rasistastimpil gyðingahaturs verði það honum hættulegt í þingkosningum á næsta ári. Flokkurinn gerir sér vonir um að ná þá völdum á ný í Bretlandi eftir að hafa verið utan ríkisstjórnar síðan 2010.

Að ná þessu markmiði Starmers hefur ekki orðið auðveldara eftir að Ísraelar snerust af fullri hörku gegn Hamas- hryðjuverkamönnum sem myrtu 1.400 manns, einkum börn, í hryðjuverkaárás í nágrenni Gaza 7. október sl. Við þetta hafa gyðingahatarar innan Verkamannaflokksins þorað að láta í sér heyra að nýju og efnt til mótmælaaðgerða með þann boðskap á vörunum að Ísraelsríki eigi ekki tilverurétt.

Hér á landi er ræða vinstrisinnar um þennan rasisma á svipaðan hátt og gert var innan Verkamannaflokksins í tíð Corbyns. Þráin við að vera úr takti við samtímann birtist í mörgum hættulegum myndum. Að hverfa aftur til tíma gyðingahaturs er ein sú óhugnanlegasta.