Rannsóknarrýni hluti almannavarna
Sameiginlegur þráður í frásögnum Jóns Svanbergs Hjartarsonar og Hlyns Hafbergs Snorrasonar er skýr: án rannsóknar, eftirfylgni og raunverulegrar varúðar er hætt við að sagan endurtaki sig.
Þegar náttúruhamfarir valda manntjóni eða stórfelldu eignatjóni ber að rannsaka slíka atburði af festu. Rannsóknin snýst ekki um að finna blóraböggla heldur um að skilgreina aðdraganda, viðbrögð og eftirmál og tryggja að samfélagið læri af reynslunni.
Í Morgunblaðinu 27. desember segir Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, að rannsóknarrýni eigi að vera sjálfsögð þegar mannskaði eða meiri háttar fjárhagslegt tjón verður af völdum náttúruhamfara.
Frumvarp dómsmálaráðherra til laga um almannavarnir liggur nú fyrir Alþingi. Jón Svanberg hefur lagt til að í lögin verði tekið skýrt ákvæði um rannsóknarnefnd sem virkist sjálfkrafa þegar náttúruhamfarir valda manntjóni eða eignatjóni. Slík regla væri sambærileg þeirri rannsóknarskyldu sem þekkist á öðrum sviðum, til dæmis í samgöngum eða vinnuvernd.
Þessi tillaga hefur þó hvorki fengið hljómgrunn meðal alþingismanna né verið tekin inn í frumvarpið. Það er, að mati Jóns Svanbergs, óásættanlegt gagnvart þolendum náttúruhamfara – fólki sem hefur jafnvel misst börn sín, ástvini, heimili og aleiguna. Smæð samfélagsins megi ekki verða afsökun fyrir feimni við að rýna í eigin ákvarðanir, skipulag og viðbrögð.
Undir þetta sjónarmið skal tekið um leið og enn einu skal minnt á að þegar núverandi lög um almannavarnir komu til sögunnar var í þeim ákvæði um slíka rannsóknarskyldu sem síðan hvarf af einhverjum ástæðum úr lögunum.

Máli sínu til stuðnings nefnir Jón Svanberg meðal annars síðbúna og nýbirta rannsókn á snjóflóðinu í Súðavík í janúar 1995. Þar er fjallað um viðbrögð í aðdraganda flóðsins, björgunaraðgerðir og eftirmál.
Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, var lögreglufulltrúi og eini rannsóknarlögreglumaðurinn á Ísafirði árið 1995. Í Morgunblaðinu í dag ( 29. desember) ræðir hann eigin reynslu af snjóflóðinu í Súðavík. Það skipti miklu að viðbragðsaðilar gæti að eigin sálrænu heilsu og að heilbrigðisyfirvöld sýni frumkvæði í að fylgja eftir slíkum áföllum, ekki aðeins gagnvart fagfólki heldur einnig sjálfboðaliðum og heimafólki.
Hann bendir jafnframt á alvarlegan veikleika í framkvæmd banns við dvöl á skilgreindum hættusvæðum, til dæmis í gömlu byggðinni í Súðavík yfir vetrarmánuðina. Bannið sé ítrekað brotið án þess að lögregla hafi raunhæf úrræði eða refsiheimildir. Slík staða grafi undan varúðarreglu almannavarna og gefi til kynna að reglur séu aðeins leiðbeinandi. Samfélag sem líði einstaklingum að meta sjálfir hvenær óhætt sé að hunsa bann kunni að valda slysum sem hefði verið hægt að hindra.
Sameiginlegur þráður í frásögnum Jóns Svanbergs Hjartarsonar og Hlyns Hafbergs Snorrasonar er skýr: án rannsóknar, eftirfylgni og raunverulegrar varúðar er hætt við að sagan endurtaki sig.
Rannsóknarregla í almannavarnalögum er því ekki formsatriði heldur grundvallarskilyrði þess að samfélagið axli ábyrgð gagnvart þolendum, viðbragðsaðilum og komandi kynslóðum.
Það er skylda löggjafans að tryggja að slíkur lærdómur tapist ekki – og að hörmungar fortíðar verði ekki endurteknar vegna skorts á festu, reglu og hugrekki til sjálfsskoðunar.