16.7.2024 10:15

Rannsaka ber söfnun Solaris

Að skjóta sér undan ákvæðum laganna með því að sækja ekki um skráningu á fjársöfnun verður alvarlegra en ella vegna þess hernaðar- og hryðjuverkaástands sem ríkir á Gaza.

Sagt var frá því í Morgunblaðinu 2. mars 2024 að samtökin Solaris hefðu hvorki sótt um leyfi fyrir opinberri fjársöfnun né tilkynnt um opinbera fjársöfnun til sýslumannsembættisins á Suðurlandi og þar með farið á svig við lög um opinberar fjársafnanir frá 1977.

Samtökin sögðust hafa safnað tugum milljóna króna (60 milljónum?) til stuðnings fólki til að komast frá Gaza.

Fjársafnanir, hverju nafni sem þær nefnast, eru taldar með auðveldum aðferðum til að þvo illa fengið fé. Þess vegna er sérstaklega litið til þess hvernig ríki standa að skráningu slíkra safnana. Í t-lið 2. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka frá 2018 segir að undir þau falli „einstaklingar eða lögaðilar sem hafa hlotið starfsleyfi á grundvelli laga um happdrætti eða til reksturs fjársafnana og happdrætta á grundvelli sérlaga“. Lögin um fjársafnanir eru sérlög sem taka til söfnunar Solaris.

Að skjóta sér undan ákvæðum laganna með því að sækja ekki um skráningu verður alvarlegra en ella vegna þess hernaðar- og hryðjuverkaástands sem ríkir á Gaza.

Markmið laganna frá 2018 „er að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með því að skylda aðila sem stunda starfsemi er kann að verða notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka til að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra og tilkynna um það til lögbærra yfirvalda vakni grunur um eða verði þeir varir við slíka ólögmæta starfsemi,“ eins og segir í 1. grein þeirra.

Með hliðsjón af þessum lagaákvæðum kom á óvart að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu ákvað að hætta rannsókn á meintum lögbrotum Sólaris í tengslum við þessa fjársöfnun. Ríkissaksóknari hefur gert embættið afturreka með þessa ákvörðun sína.

Screenshot-2024-07-16-at-10.12.06

Skjáskot af ruv,is 16. júlí 2024, Sema Erla og María Lilja sættu kæru vegna fjársöfnunar Solaris.

Í frétt Morgunblaðsins í dag (16. júlí) segir að ríkissaksóknari leggi fyrir lögreglustjóra að taka upp rannsókn málsins á ný, „ljúka henni og taka ákvörðun í málinu að þeirri rannsókn lokinni í samræmi við ákvæði sakamálalaga“. Segir jafnframt „að ríkissaksóknari hafi óskað eftir rökstuðningi lögreglustjóra fyrir ákvörðun sinni, en hann hafi ekki borist“.

Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður kærði stjórnendur Solaris vegna grunsemda um að háttsemi þeirra kynni að varða við lög.

Ríkissaksóknari segir að í gögnum frá höfuðborgarlögreglunni komi „ekkert það fram að álykta megi að lögreglustjóri hafi skilgreint sakarefni né komist að sjálfstæðri niðurstöðu um það að ekki væri um opinbera fjársöfnun að ræða, heldur byggir það á svörum kærðu í málinu“.

Ekkert komi fram í gögnum málsins af hverju rannsókn hafi verið hætt og því sé sú ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir lögreglustjóra að „taka málið til viðeigandi meðferðar.“

Ríkissaksóknari kveður skýrt að orði enda er mikið í húfi að aðgerðarleysi í málum sem þessum verði ekki til þess að veikja trú á íslenska réttarkerfinu þegar peningaþvætti er annars vegar svo ekki sé minnst á stuðning við hryðjuverkamenn.