12.9.2021 14:13

Raforka í norskum stjórnmálum

Orkuverð verður til umræðu þegar Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins, tekur til við stjórnarmyndun að kosningum loknum.

Kosið er til norska stórþingsins á morgun og talið að borgaralega stjórnin undir formennsku Ernu Solberg falli eftir að hafa farið með stjórn landsins í tvö kjörtímabil.

Fyrir rúmum tveimur árum fór starfshópur sem vann að skýrslugerð um EES fyrir íslensk stjórnvöld að beiðni alþingismanna á fundi Osló með embættismönnum stjórnmálamönnum, forystumönnum atvinnulífs og launþega auk annarra sérfróðra manna og baráttuhópa með og gegn samstarfi við ESB, meira að segja gegn aðild Noregs að EES. Af fundunum mátti álykta að í aðdraganda kosninganna nú yrði vegið að EES-aðild Noregs af einhverjum stjórnmálaflokkanna, einkum Miðflokknum (Senterpartiet, SP) sem átti samleið með Nei til EU-samtökunum í andstöðu við þriðja orkupakkann.

B2345f4d-2e31-4b1b-a27f-f4fb2b578775Trygve Slagsvold Vedum, formaður Miðflokksins, fremst á myndinni. Í bakgrunni Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins, og Erna Solberg, formaður Hægriflokksins, núverandi forsætisráðherra Noregs.

Hæstiréttur Noregs samþykkti í vor að taka til meðferðar mál andstæðinga þriðja orkupakkans í Noregi sem snýst um hvort stórþingið hafi staðið rétt að samþykkt málsins. Hæstiréttur hefur ekki leitt málið til lykta.

Á lokadögum norsku kosningabaráttunnar leggur Trygve Slagsvold Vedum, formaður SP, þunga áherslu á að orkuverð sé of hátt í Noregi og lofar niðurgreiðslum til að jafna verð til þeirra sem bera þyngstu byrðarnar vegna flutningskostnaðar á orku. Varið skuli milljörðum til að jafna þenna mun. Þetta verði tvímælalaust eitt helsta málið við gerð fjárlaga fyrir árið 2022.

Audun Lysbakken, leiðtogi SV, Sósíalíska vinstriflokksins, segir að veita eigi um 90.000 móttakendum búsetustuðnings í Noregi sérstakan raforkustyrk. Vedum telur það ekki nóg. Það verði að líta til mun stærri hóps.

Ágreiningurinn um þetta er fyrirboði þess sem verður til umræðu þegar Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins, tekur til við stjórnarmyndun að kosningum loknum.

Spurning er hvort Bjørnar Moxnes, leiðtogi flokksins lengst til vinstri, Rødt, verður kallaður til viðræðna um myndun vinstri stjórnar í Noregi. Hann er sömu skoðunar og Vedum að almennt eigi að auka niðurgreiðslur á raforkuverði.

SP og Rødt vilja einnig takmarka á sölu raforku frá Noregi til Bretlands og ESB-ríkja. Bent er á að í stað þess að skera á raforkusölu til útlanda megi virkja meira í Noregi. Sé það rætt leggst Rødt gegn vindorkuverum bæði á sjó og landi. Vedum sættir sig við vindorkuver á hafi úti og betri nýtingu vatnsafls en hann er andvígur vindorkuverum á landi. Þá vill hann að norsk stjórnvöld hafi meira að segja um orkustreymið um sæstrengi til annarra landa. Hann vill að hætt verði við áform um NorthConnect, 650 km sæstreng milli Noregs og Skotlands. Fyrr á árinu var gert hlé á viðræðum um framkvæmd áætlana um hann.

Vedum boðar „stóran slag“ á stórþinginu um fjórða orkupakkann. Frekara valdframsal til ESB komi ekki til greina. Í viðræðum um stjórnarmyndun verði rædd leið til að Norðmenn segi sig frá Acer, fagstofnun ESB um raforkumál. SP vilji ekki evrópskt orkuverð í Noregi. Bjørnar Moxnes í Rødt tekur undir gagnrýni Vedums á Acer. EES-aðildina eða ESB-aðild bar ekki hátt í norsku kosningabaráttunni, orkan fór í annað.