Ráðaleysi í stað námsmats
Frásögn Morgunblaðsins ber með sér að allt þetta ferli einkennist af einhverju ráðaleysi og þar skorti þá pólitísku forystu sem er óhjákvæmileg til að ljúka því.
Það er ótraustvekjandi að lesa forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag (18. júlí) um málefni grunnskólans. Þeim hefur verið úthýst úr menntamálaráðuneytinu til Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og þar standast engar tímaáætlanir um innleiðingu á nýju námsmati sem ætlað er að leysa samræmd könnunarpróf í grunnskólum af hólmi.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir ekki til skoðunar að samræmd könnunarpróf verði tekin tímabundið upp að nýju, þrátt fyrir að ljóst sé að minnst sex ár muni annars líða án þess að samræmd mæling verði framkvæmd á landsvísu.
Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, sem leggst hefur gegn miðlun og birtingu gagna um stöðu einstakra skóla vegna PISA-könnunarinnar, segir í blaðinu að það sé „ekki góðs viti að fara að búa til einhvers konar samkeppni milli skóla“.
Sumarið 2021 var tilkynnt að nemendur gætu tekið „ný hæfnimiðuð samræmd könnunarpróf næsta vor“ – en svo varð ekki. Nú er sagt að nýtt námsmat í grunnskólum verði ekki innleitt að fullu fyrr en í fyrsta lagi skólaárið 2026 til 2027. Miðað við tafir og reynslu síðustu missera er full ástæða til að taka þessu fyrirheiti með fyrirvara.
Hér var á dögunum vitnað í reynda skólamenn sem segja að kröfurnar í námskrám grunnskólans séu svo óljósar að erfitt sé að átta sig á þeim og kannski séu þær í raun óskiljanlegar.
Skólar starfa um heim allan og vissulega eftir mismunandi aðferðum en alþjóðlegir mælikvarðar gefa til kynna hvar besti árangur næst. Það er kannski vegna andúðar á samkeppni og gildi hennar að hér er farin sú leið að hætta öllu námsmati í nokkur ár á meðan unnið er að heimasmíðuðu tóli. Vinnan hófst árið 2018 og nú segir forstjóri menntamiðstöðvar að „aldrei hafi verið jafn umfangsmikið samráð í neinu máli eins og þessu“.
Frásögn Morgunblaðsins ber með sér að allt þetta ferli einkennist af einhverju ráðaleysi og þar skorti þá pólitísku forystu sem er óhjákvæmileg til að ljúka því. Nú er ljóst að vinnan dregst fram yfir þingkosningar á árinu 2025. Þær hljóta að snúast um menntamál og hlut ríkisins við að móta grunnskólanum skýra starfsumgjörð, til dæmis með miðlun upplýsinga um stöðu skóla.
Af orðum forstjóra menntamiðstöðvarinnar má álykta að samráðið mikla hafi verið meðal innvígðra án þess að meginstefna og markmið hafi verið kynnt á opinberum vettvangi.
Færa má fyrir því gild rök að námsárangur minnki við aukin skil milli innra starfs í skólum og vitneskju eða afskipta foreldra af skólastarfi. Í aðdraganda þingkosninga er óhjákvæmilegt að stjórnmálaflokkar setji fram skýra stefnu í þeim málum sem hér eru rædd.
Sérfræðivæðing hefur vissulega gildi í menntamálum. Þar eins og annars staðar er hætta á að regluverkið fái sjálfstætt líf og tímaskyn. Forgangur verður í þess þágu en ekki þeirra sem það á að þjóna. Yfirstjórn menntamála hefur misst tökin gagnvart þeim sem nú ráða ferð og tíma.