Ráðaleysi í ráðhúsinu
Það sýnir svo dómgreindarleysi þeirra sem styðja þessa stjórnarhætti í Reykjavík að þeir vilji kalla það yfir alla þjóðinni með sambærilegu stjórnleysi í stjórnarráðinu.
Meirihlutastjórnin í Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir hverju vandamálinu á eftir öðru þar sem við blasir fyrirhyggjuleysi og vandræðagangur, afleiðing tilhneigingar til að bjarga sér fyrir horn eins og gert var á sínum tíma þegar monthús Orkuveitu Reykjavíkur (OR) var reist fyrir tæpum tveimur áratugum. Það stendur nú að hluta fokhelt vegna viðgerða og rakaskemmda. Þegar OR-húsbygging vinstri meirihlutans í borginni sætti gagnrýni voru gagnrýnendurnir sakaðir um aðför að starfsfólki OR, fólkinu sem síðan hefur beðið heilsutjón af því að starfa í húsinu.
Vorið 2021 var unnið að viðgerðum á Fossvogsskóla samt varð að kenna utan hans í haust (mynd mbl.is).
Hörmungarsöguna af skólahúsunum í Fossvogsdalnum má kalla söguna endalausu. Í stað þess að ræða efni málsins og hvers vegna ekki er tekið á vandanum á þann veg að viðunandi lausn finnist kýs meirihlutinn að kenna vandamálið við skort á góðri og skýrri „upplýsingamiðlun“. Frétt á ruv.is frá 15. september 2021 hefst á þessum orðum:
„Borgaryfirvöld gangast við því að vinnubrögð hafi ekki verið nógu góð og upplýsingamiðlun nógu skýr þegar kemur að myglu- og rakavandamálum í skólahúsnæði í borginni. Dóra Björt Guðjónsdóttir segir að borgaryfirvöld séu að setja upp nýja verkferla, hvernig eigi að bregðast við þegar mygla og rakavandamál koma upp í skólum.“
Dóra Björt er borgarfulltrúi Pírata og eftir allt fárið sem á undan er gengið um margra mánaða telur hún nægilegt „setja upp nýja verkferla“. Að orðið „verkferill“ sé lausnarorð í þessum málum er misskilningur. Verkferlar eru til lítils gagns séu síðan teknar rangar ákvarðanir. Það voru ekki verkferlar sem réðu því að kostnaður við Nauthólsvíkurbraggann fór úr böndunum heldur ákvarðanir á ábyrgð meirihluta borgarstjórnar. Kjörnir fulltrúar skjóta sér ekki undan ábyrgð í skjóli verkferla.
Þriðjudaginn 14. september 2021 var tilkynnt að öll starfsemi leikskólans Kvistaborgar í Fossvogi færðist í húsnæði Safamýrarskóla frá og með þriðjudeginum 21. september. Mygla greindist á Kvistaborg 2017.
Í lýsingum á því hvers vegna ekki næst skipulega utan um mygluvandann í skólum borgarinnar kemur meðal annars fram að ekki er nægilegt samband milli ólíkra „sviða“ Reykjavíkurborgar, hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir. Hafi kjörnir fulltrúar einhverju hlutverki að gegna og að lokum sjálfur borgarstjórinn er það að tryggja samhæfingu innan stjórnkerfisins. Vegna marghöfða meirihluta við stjórn borgarinnar hafa flokkspólitískir smákóngar eignað sér ákveðin svið og halda spilunum að sér. Það eru engir „verkferlar“ meðal embættismanna sem breyta þessu. Eftir höfðinu dansa limirnir og sé tómarúm á toppnum fer hver smákóngur sínu fram. Þannig er pólitískri stjórn borgarinnar háttað.
Það sýnir svo dómgreindarleysi þeirra sem styðja þessa stjórnarhætti í Reykjavík að þeir vilji kalla það yfir alla þjóðinni með sambærilegu stjórnleysi í stjórnarráðinu.