5.5.2022 10:24

Ráðalaus borgarstjóri – stokkur frá 2006

Dagur B. er staddur á sama stað við að útfæra Miklubraut í stokk og hann var árið 2006. Útfærslan liggur er enn óljós.

Ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu: Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes stofnuðu 2. október 2020 opinbert hlutafélag, Betri samgöngur, um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Félagið hefur yfirumsjón með framkvæmdum vegna uppbyggingar samgangna og fjármögnun þeirra, þar á meðal innviði almenningssamgangna.

Í Morgunblaðinu í dag (5, maí) segir frá því að Betri samgöngur ohf. og Vegagerðin ætli að láta vinna frumdrög að jarðgöngum undir Miklubraut, frá Snorrabraut og austur fyrir Grensásveg, til samanburðar við steyptan stokk sem leggja á frá Snorrabraut og austur fyrir Kringlu samkvæmt gildandi aðalskipulagi og samgöngusáttmála.

Gert hefur verið ráð fyrir því að stokkurinn verði byggður í tveimur áföngum. Annars vegar á milli Snorrabrautar og Rauðarárstígs og hins vegar þaðan og austur fyrir Kringlu.

279642628_10160050608964171_3056836706110528207_nAf fréttinni má ráða að allt sé í raun á frumstigi varðandi steypta stokkinn. Það er forvitnileg staðreynd. Á loforðaskrá Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 2006 þegar Dagur B. Eggertsson leiddi lista flokksins í fyrsta sinn segir að útfæra eigi Miklubraut í stokk. Þessi útfærsla hefur verið á döfinni síðan. Dagur B. hefur setið sem borgarstjóri í átta ár af þeim 16 sem liðin eru frá því að hann lofaði stokk-útfærslunni auk fjögurra ára sem formaður borgarráðs.

Á Facebook 3. febrúar 2022 boðaði Dagur B. að stefnt væri að því að Miklabraut yrði komin í stokk samhliða því sem nýr Landspítali yrði tilbúinn, eða árin 2025-2026. Borgarstjóri sagði að fjármögnun framkvæmdarinnar væri hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Vegagerðin undirbyggi útboð á hönnun stokksins en Reykjavíkurborg leiddi skipulagsvinnuna á yfirborði. „Eigum frábært samstarf við Betri samgöngur, Vegagerðina,“ sagði borgarstjóri.

Þeir sem lesa annars vegar fréttina í Morgunblaðinu í dag um áform Vegagerðarinnar og Betri borgar um samanburð á Miklubraut í göngum eða stokki og hins vegar orð Dags B. borgarstjóra fyrir þremur mánuðum um stokkinn og Miklubrautina hljóta að velta fyrir sér hvernig þessu „frábæra samstarfi“ sé háttað.

Dagur B. er staddur á sama stað við að útfæra Miklubraut í stokk og hann var árið 2006. Útfærslan liggur er enn óljós. Að framkvæmdum ljúki á næsta kjörtímabili er endurtekning á álíka innantómu loforði og hann gaf um stokkinn árið 2006.

Veit borgarstjóri ekki betur? Fer hann vísvitandi með rangt mál?

Þegar skort á þjóðarhöll bar á góma um páskana vaknaði Dagur B. með andfælum og setti ríkinu afarkosti. Það yrði eitthvað gerðist fyrir 1. maí annars nýtti hann tvo milljarða í eitthvað annað. Hjá Degi B. gerðist ekkert fyrir þennan dag. Þá sagði hann að 6. maí yrði gengið frá samkomulagi um málið við ríkið. Í stjórnarráðinu kannaðist enginn við það.

Ráðaleysi borgarstjórans ber sama svip hvert sem litið er.