25.2.2018 11:55

Qigong-minningar

Þessi ferð okkar til Boston kom í hugann í dag af því að heimskunnur, bandarískur qigong-iðkandi Kenneth Cohen sendi mér í morgun þá skemmtilegu mynd sem hér fylgir.

Fyrir sjö árum var ég á þessum degi í Boston með Gunnari Eyjólfssyni, Þóru Halldórsdóttur og Sigfúsi Sverrissyni. Við sóttum qigong-námskeið hjá dr. Yang sem þá rak qigong-setur í borginni. Dvöldumst við í Boston í 10 daga og minnist ég enn hve veðrið var kalt og leiðinlegt. Hér í dagbókinni má meðal annars lesa þessa færslu frá 25. febrúar 2011:

„Það rigndi eldi og brennisteini fram eftir degi í Boston en undir kvöld fór að snjóa. Við fórum í Symphony Hall síðdegis og hlýddum á Boston Symphony Orchestra (BSO) leika 9. sinfóníu Mahlers.

Tónlistarhúsið var opnað í október árið 1900 og var hljómburður í því sérhannaður af Wallace Clement Sabine, ungum aðstoðarprófessor í eðlisfræði við Harvard-háskóla. Segir í kynningu á húsinu að það hafi verið hið fyrsta þar sem beitt var vísindalegum aðferðum til að ná sem bestum hljómburði. Húsið sé nú talið eitt af þremur bestu hljómburðarhús um heims, hin séu Concertgebouw í Amsterdam og Musikverein í Vínarborg. Bruno Walter hafi nefnt það „göfugasta tónlistarhús Ameríku“ og Herbert von Karajan hafi borið það saman við Musikverein með þeim orðum, að það stæði Musikverein jafnvel framar fyrir flesta gerð tónlistar.“

James Levine var aðalstjórnandi BSO árið 2011. Hann var veikur þennan dag og stjórnaði Sean Newhouse varastjórnandi 9. sinfóníu Mahlers. Levine hætti í Boston 2011 og var rekinn frá Metropolitan-óperunni í New York í desember 2017 eftir að þrír karlar sökuðu hann um kynferðislega áreitni. Nú er Andris Nelsons aðalstjórnandi í Boston og einnig Gewandhauskapellmeister, aðalstjórnandi í Gewandhaus, fræga tónlistarhúsinu í Leipzig.

Meðal þess sem við gerðum í Boston var að fagna 85 ára afmæli Gunnars 24. febrúar. Síðar gáfum við qigong-félagar Gunnars út bókina Gunnarsæfingarnar. Hún hefur að geyma lýsingu á qigong-æfingakerfi sem Gunnar mótaði og kenndi hér um árabil og haldið er við af Aflinum, félagi qigiong-iðkenda.

DSCN0330-copyGunnar Eyjólfsson, Kenneth Cohen og Björn Bjarnason

Þessi ferð okkar til Boston kom í hugann í dag af því að heimskunnur, bandarískur qigong-iðkandi Kenneth Cohen sendi mér í morgun þá skemmtilegu mynd sem hér fylgir og tekin var af okkur Gunnari með honum að Kvoslæk í byrjun september 2015 þar sem Cohen hélt qigong-námskeið með þátttöku tæplega 30 manns.

Með myndinni sendir Ken Cohen þennan texta: „Seems like only yesterday. Life is so short, and so precious.“

Qigong er í mikilli sókn um allan vestrænan heim, meðal annars fyrir tilstuðlan manna eins og Cohens sem gaf árið 1997 út bókina The Way of Qigong, grundvallarrit til kynningar á þessari kínversku lífsorkuaðferð fyrir Vesturlandabúum. Hann hefur einnig náð frábærum árangri við að innleiða qigong í bandaríska heilbrigðiskerfið. Svipuð vakning ætti að verða hér, ekki síst í þágu eldri borga.