20.2.2020 7:21

Qi gong fyrir eldri sem yngri

Þeir sem þekkja sögu þessara æfinga segja að engar æfingar sem einstaklingar geta stundað sér til heilsubótar, einir heima hjá sér eða í hóp, séu betur rannsakaðar en qi gong æfingarnar.

Í þættinum Heilsuráð í Morgunblaðinu í dag birtist grein um nauðsyn þess að eldri borgarar hreyfi sig. Höfundarnir segja:

„Við höfum áður rætt um mikilvægi hreyfingar fyrir eldra fólk. Okkur langar nú að halda áfram og ræða hreyfingu sem hægt er að stunda heima, því ekki eiga allir heimangengt, og það er aldrei of seint að byrja.

Styrkur og lipur lengur

Með daglegri hreyfingu höldum við okkur styrkum og liprum lengur, bætum heilsuna og viðhöldum betur færninni til að lifa sjálfstæðu lífi. Við erum misjafnlega vel á okkur komin, og því er um að gera að byrja rólega og síðan smáauka hreyfinguna.

Allir þurfa daglega hreyfingu og margt er hægt að gera heima. Ef þú átt erfitt með jafnvægið, þá er um að gera að tryggja það, gæta þess að styðja sig og geta gripið í eitthvað stöðugt.“

Undir þessi orð skal tekið og einnig það sem segir um ágæti æfinganna sem kynntar eru.

Sem formaður í Aflinum, félagi qi gong iðkenda, vil ég þó ekki láta hjá líða að minna í þessu sambandi á qi gong æfingarnar sem eiga sér mörg þúsund ára gamla sögu og höfðu og hafa enn að meginmarkiði að stuðla að góðri heilsu og langlífi.

IMG_8918Qi gong á Klambratúni sumarið 2019.

Þeir sem þekkja sögu þessara æfinga segja að engar æfingar sem einstaklingar geta stundað sér til heilsubótar, einir heima hjá sér eða í hóp, séu betur rannsakaðar en qi gong æfingarnar.

Hér á landi gáfum við í Aflinum út bókina Gunnarsæfingarnar, kenndar við Gunnar Eyjólfsson leikara, sem þróaði æfingakerfið sem hann stundaði á meðan honum entist aldur til níræðs.

Víða eru æfingarnar stundaðar á skipulegan hátt undir leiðsögn félaga í Aflinum auk þess sem einstaklingar hér hafa aflað sér mikillar þekkingar á þessu sviði og miðla henni fúslega til annarra.

Áhuginn er mikill hjá þeim sem kynnast æfingunum eins og sjá má til dæmis á Klambratúni á sumrin þar sem á annað hundrað manns koma saman tvisvar í viku til að æfa saman.

Snar þáttur í qi gong er hugleiðsla en gildi hennar er ótvírætt eins og æ fleiri læknisfræðilegar rannsóknir sýna.

Ástæða er til að hvetja alla sem vilja gefa öldruðum og öðrum heilsuráð að kynna sér qi gong. Eins og áður sagði hafa engar æfingar af þessum toga verið meira rannsakaðar og áhrifin eru ótvíræð.