6.3.2019 9:25

Qi gong gegn síþreytu

Er unnt að beita þúsund ára gömlum líkamsorkuæfingum til að draga úr síþreytu nú á tímum hraða og breytinga?

Fyrir nokkrum dögum birtist neðangreind þýðing mín á Facebook-síðu Tveggja heima.

Lesendur síðu minnar vita að ég hef stundað qi gong áratugum saman. Í greininni er að finna hluta skýringarinnar á því hvers vegna ber að hvetja sem flesta til að nýta sér þessar einföldu, gefandi æfingar. Fyrsta skrefið til þess er að gefa sér tíma.

QigongÁ ársfundi Society of Behaviroal Medecine, Samtaka atferlislækninga, í Bandaríkjunum var árið 2012 kynnt niðurstaða rannsóknar  sem sýnir að unnt sé að gera það.

Með vísan til hefðbundinnar kínverskrar læknisfræði, (Traditional Chinese Medicine TCM), felast áhrif qi gong í að tryggja að ekkert stífli straum orku um orkubrautir líkamans (meridians).

Æfingarnar stuðla að því að orka og blóð flæði hindrunarlaust.

Niðurstöður rannsóknarinnar sem að ofan er getið styrkjast við þá staðreynd að tæplega 70% af þéttbýlisbúum í Kína iðka líkamsorkuæfingarnar, vinsældir þeirra aukast jafnt og þétt á Vesturlöndum.
Qi gong (framburður: sí gong) líkist jóga að því leyti að með æfingunum er leitast við að samhæfa líkamsburð, huga og öndun með mjúkum hreyfingum og hugleiðslu.

Grunnþættir qi gong eru öguð öndun, agaður líkamsburður og öguð vitund (einbeiting). Fyrir utan að draga úr þreytu sýndi rannsóknin að qi gong bætti á mælanlegan hátt geðræna og líkamlega heilsu auk andlegrar vellíðunar.
Gerði var tilraun með 154 einstaklingum á aldrinum 18-55 ára sem féllu undir greiningu heilsumiðstöðva (Centers for Disease Control and Prevention) á síþreytu. (Á vísindavef HÍ segir: Síþreyta einkennist af stöðugri þreytu sem byrjar nokkuð skyndilega og getur staðið yfir vikum eða mánuðum saman. Önnur algeng einkenni eru til dæmis hægari hugsun, lélegt minni, einbeitingarleysi, fælni, kvíði, þunglyndi, of lítil eða of mikil svefnþörf, vöðva- og liðverkir, hitaslæðingur, hálsbólga, meiri viðkvæmni fyrir hita og kulda, óvenjulegir höfuðverkir, ljósfælni, óregla á hægðum og munn- og augnþurrkur. Þessi einkenni þurfa þó ekki að vera öll til staðar hjá sama sjúklingnum.)

Með slembiaðferð var fólkinu skipt í tvo hópa. Annar hópurinn stundaði qi gong tvisvar í viku í fimm vikur, stóð hver æfing í tvær klukkustundir, auk þess var mælt með því að þátttakendur æfðu sig heima í 15-30 mínútur á dag. Hinn hópurinn var settur á biðlista.
Qi gong æfingar voru reistar á 10 líkamshreyfingum sem voru iðkaðar að morgni dags. Á kvöldin var fyrir svefn var stunduð hugleiðsla þar sem aðeins var lögð áhersla á þindaröndun
Hjá hópnum sem stundaði qi giong minnkuðu heildareinkenni síþreytu um 39%. Iðkun qi gong í minnst 30 mínútur að minnsta kosti þrjá daga í viku leiddi til betri niðurstöðu – batinn var tæplega tvöfalt meiri. Því oftar sem qi gong var iðkað þeim mun meira minnkuðu einkenni þreytunnar.

Rannsakendur athuguðu einnig blóðsýni úr þátttakendum til að kanna áhrif qi gong á öldrun og langlífi. Hjá hópnum sem stundaði qi gong fannst tölfræðilega merkjanleg aukning á telomerase, frumuhvata sem verndar DNA fruma og auðveldar litningaendum þeirra að „endurbyggjast“ og lengir þar með líf frumanna. Magn telomerase er notað til að mæla aldur fruma og komið hefur í ljós að það er minna hjá einstaklingum sem eru þjakaðir af lífsáhyggjum og stressi. Eldri rannsóknir sýna að hugleiðsla eykur telomerase.

Mörgum á Vesturlöndum er illskiljanlegt og finnst jafnvel dularfullt að unnt sé að minnka einkenni síþreytu með því að iðka qi gong. Þetta eru bara mjög hægar, mjög mjúkar hreyfingar og okkur Vesturlandabúum er kennt að við verðum að svitna og láta reyna á alla krafta sem við eigum. Eins og áður sagði er kínverska læknisfræðin reist á því að hindra að orkuflæði líkamans stíflist, með qi gong er stuðlað að frjálsu orkuflæði. Hægu, mjúku hreyfingar qi gong gera æfingarnar sérstaklega aðlaðandi fyrir eldri borgara. Allir geta stundað þær, unnt er að gera það heima hjá sér, þær krefjast hvorki dýrs búnaðar né sérstaks fatnaðar.
--
Grein þessi birtist á vefsíðunni University Health News (UHN) í Bandaríkjunum 29. janúar 2019. Þar segir að hún hafi fyrst birst 2012 en verið uppfærð reglulega sem bendir til að ritstjórninni þyki hún stöðugt eiga erindi til lesenda vefsíðunnar.

Belvoir Media Group er útgefandi University Health News (UHN). Í Bandaríkjunum er litið á síðuna sem eina helstu heimild heilsufrétta, ráðgjafar og upplýsinga sem eiga uppruna sinn í nokkrum af fremstu læknaháskólum, sjúkrahúsum og heilsumiðstöðvum Bandaríkjanna. Þar má nefna Duke University School of Medicine, Icahn School of Medicine at Mount Sinai Hospital, Massachusetts General Hospital, Tufts University School of Nutrition Science and Policy, UCLA School of Medicine, og Weill Cornell Medicine. Meðal samstarfsaðila Belvoir eru einnig Cleveland Clinic og Harvard Medical School.