Pútin upp við vegg
Það er rík sjálfspyntingarhvöt að menn hér eða annars staðar á Vesturlöndum láta eins og það sé stjórnendum landa þeirra að kenna að Pútin fer fram án nokkurrar skynsemi.
Vladimir Pútin sendir rússneska herinn inn í Úkraínu, fullviss um að hann leggi landið undir sig á skömmum tíma og velti stjórn „eiturlyfjaneytenda og nýnazita“ í Kyíf. Þegar hernum reynist um megn að ná þessum markmiðum hristir Rússlandsforseti kjarnorkuvopnin sín.
Rússneski blaðamaðurinn Dmitríj Muratov sem í fyrra fékk friðarverðlaun Nóbels segir að kjarnorkuhótun Pútins þýði að „allt verði eyðilagt nema komið sé fram við Rússa eins hann [Pútin] vill“.
Liðin vika sýndi að hótunum um hernaðaraðgerðir sem Pútin boðar í ávörpum sínum fylgir hann eftir með fyrirmælum til hersins.
Varnarmálaráðuneyti Úkraínu segir að 5.300 rússneskir hermenn hafi fallið í valinn, 29 flugvélar Rússa hafi verið skotnar niður, 29 þyrlur og 151 skriðdreki. Rússneska varnarmálaráðuneytið viðurkennir tjón og mannfall án þess að nefna tölur. Rússneska efnhagskerfið hrundi vegna vestrænna refsiaðgerða sem kynntar voru í vikulokin og yfir helgina, verðgildi rúblunnar hefur aldrei verið lægra.
Hermenn Úkraínu hafa veitt meiri andspyrnu en Pútin vænti.
Hernaðurinn á hendur Úkraínumönnum varð til þess að sunnudaginn 27. febrúar sneru Þjóðverjar við blaðinu í varnar- og öryggismálum. Þeir ætla að stórefla her sinn með 100 milljarða evra aukafjárveitingu auk þess sem þýsk vopn standa nú Úkraínumönnum til boða. Þá verður ráðist í hafnarframkvæmdir í Þýskalandi til að taka við fljótandi jarðgasi úr skipum til að minnka gaskaup af Rússum.
Evrópusambandið fjármagnar nú í fyrsta sinn vopnakaup ríkis í stríði. Allar ferðir rússneskra flugvéla til evrópskra flugvalla eru úr sögunni. Lokað er á ríkisreknar rússneskar áróðursstöðvar svo að þær geta ekki dreift lygum sínum í Evrópu.
Leppur Pútins, Alexander Lukasjenkó, einræðisherra í Hvíta-Rússlandi segir að refsiaðgerðir Vesturlanda séu að „þröngva Kremlverjum í þriðju heimsstyrjöldina“. Það er furðulegt að mönnum hér á landi detti í hug að tala í svipuðum dúr og Lukasjenko. Það er hins vegar raunin eins og sjá má í fráleitum athugasemdum sumra á Facebook svo að dæmi sé tekið og jafnvel í greinum á netinu eða í blöðum.
Það er rík sjálfspyntingarhvöt að menn hér eða annars staðar á Vesturlöndum láta eins og það sé stjórnendum landa þeirra að kenna að Pútin fer fram án nokkurrar skynsemi. Hann stjórnast af slavneskum stórveldisdraumum eða brjálæði þar sem Rússar eru herraþjóðin. Þess vegna eru sárindi hans meiri en ella þegar gert er grín að óförum rússneskra hermanna í Úkraínu.
Þótt bannað sé að tala um innrás eða stríðsyfirlýsingu í rússneskum fjölmiðlum fer það ekki fram hjá almenningi þar að rússneski seðlabankinn hefur hækkað vexti í 20% og fyrirtæki með erlend viðskipti er skylduð til að kaupa rúblur fyrir 80% af tekjum sínum í erlendum gjaldmiðli. Blaðamaðurinn Muratov segir að það sé þó borin von að rússneskur almenningur snúist gegn Pútin, hann taki alltaf afstöðu með foringjanum. Ófriðinum og óvissunni er alls ekki lokið.