9.12.2023 10:43

Pútin til eilífðar

Nú er þess aðeins beðið hverja Kremlverjar velja til að vera strengjabrúður í sviðsettri kosningabaráttu þeirra við endurkjör Pútin svo krýna megi hann sem stórsigurvegara.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti tilkynnti 8. mars 2023 að hann yrði í framboði til endurkjörs í kosningum 17. mars 2024. Hann er 71 árs og býður sig nú fram í fimmta skipti. Pútin hefur verið við völd síðan 1999. Kjörtímabil Rússlandsforseta er nú sex ár.

Pútín verður endurkjörinn enda eru kosningarnar í raun sýndarmennska. Öll stjórnarandstaða hefur verið upprætt í Rússlandi, hún er aðeins til í blekkingarskyni undir handarjaðri Kremlverja. Þeir sjá örugglega til þess að úrslit kosninganna sýni heldur meiri stuðning við Pútin en áður. Árið 2018 fékk Pútin 77,5% atkvæða.

Russia's President Vladimir Putin attends a ceremony to present Gold Star medals to service members

Vladimir Pútin 8. desember 2023.

Þegar forsetakosningar fóru fram í Rússlandi árið 2012 afhjúpuðu andstæðingar Pútins kosningasvindl. Við mótmælum almennings var brugðist af grimmdarlegri hörku. Öll tök á allri andstöðu hafa síðan verið hert mikið. Nú fær fólk þunga fangelsisdóma fyrir að kalla hernaðinn gegn Úkraínu stríð en ekki „sérstaka hernaðarlega aðgerð“ að fyrirmælum Pútins og hans manna.

Hvað sem líður opinberu þögguninni um stríðið er talið líklegt að Pútin kalli fleiri til vopna gegn Úkraínumönnum fram yfir kjördag. Hann vilji ekki skaprauna almenningi um of með ofríki sínu. Honum er ekki ljúft að taka neina persónulega áhættu eins og sannaðist vel í ofurvarkárni hans á COVID-tímanum.

Memorial, rússnesk mannréttindasamtök, segir að nú séu 419 pólitískir fangar í Rússlandi. Alexei Navalníj, öflugasti andstæðingur Pútins, er á bak við lás og slá og öllum bandamönnum hans er bannað að taka þátt í kosningum.

Rússneska öryggislögreglan, FSB, reyndi að drepa Navalníj árið 2020 með því að byrla honum eitur. Hann var fangelsaður og sakfelldur á fölskum forsendum árið 2021 og lögfræðingar hans voru handteknir í október 2023. Nokkrir bandamenn hans hafa verið fangelsaðir og aðrir flúið land.

Í apríl 2023 var annar gagnrýnandi Pútins, Vladimir Kara-Murza, dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir að vekja máls á stríðsglæpum Rússa í Úkraínu. Er einsdæmi að Pútinstjórnin svipti einstakling frelsi í svo langan tíma fyrir friðsamleg stjórnmálastörf en sýnir ofsóknaræðið í þágu forsetans.

Nú er þess aðeins beðið hverja Kremlverjar velja til að vera strengjabrúður í sviðsettri kosningabaráttu þeirra við endurkjör Pútin svo krýna megi hann sem stórsigurvegara.

Hvað sem handvöldum frambjóðendum líður þurfa Pútin og menn hans enn og aftur að hafa stjórn á kjörseðlunum sem fara í kassana. Árið 2020 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrárbreytingu sem heimilaði Pútin að bjóða sig fram tvisvar enn til forseta, það er 2024 og 2030. Þar með var hann í raun gerður að einræðisherra til lífstíðar. Xi Jinping Kínaforseti hefur tryggt sér svipaðan sess eins og Aleksander Lukasjenko Belarúsforseti svo að ekki sé minnst á Kim Jong-un, einræðisherra N-Kóreu.

Þessir fjórir standa ásamt klerkaveldinu í Íran saman að innrásinni í Úkraínu og að baki Hamas á Gaza. Eitt er víst: þeir stuðla ekki að friðsamlegri heimi.