4.5.2022 9:31

Pútin sakar Svía um nazisma

Hér hefur oftar en einu sinni verið minnt á þau orð, að saki maður andstæðing sinn um nazisma sýni það ekki annað en eigið rökþrot. Að sjálfgsögðu á þetta við um Pútin og málsvara hans.

Víða um Moskvu hanga plaköt með tilvitnunum í heimsfræga Svía: Astrid Lindgren, höfund Línu langsokks, Ingmar Bergman kvikmyndaleikstjóra og Ingvar Kamprad, stofnanda IKEA. Gefið er til kynna að þau hafi öll verið höll undir nazista. Þá sést einnig plakat þar sem Gústaf V. Svíakonungur er sakaður um að hafa verið nazisti. Frá þessu er skýrt á vefsíðunni Local.se

Auk mynda af fórnarlömbum þessarar herferðar setja sænsku fánalitirnir svip á plakötin. Deilt er um hvort þessi herferð í Moskvu sé til þess að ögra Svíum eða til að réttlæta innrásina í Úkraínu fyrir borgarbúum. Yfirlýstur tilgangur „sérstöku hernaðarlegu aðgerðarinnar“ gegn Úkraínumönnum er að „af-nazistavæða“ þá.

Carl Bildt, fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra Svíþjóðar, veltir því hins vegar fyrir sér á Twitter hvort tilgangurinn með plakötunum sé að „hefja einnig aðgerð til af-nazistarvæðingar gegn Svíþjóð“.

Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svía, mótmælti rógsherferðinni harðlega og varaði Svía og sérstaklega fjölmiðlamenn við hættunni af því að erlend ríki reyndu að hafa áhrif á umræður á heimavelli Svía um mál sem þá varðaði.

FR0uv6AWQAEwnUHRússar vitna í dagbók Astrid Lindgren frá stríðsárunum þar sem hún lýsir ótta sínum við að Rússar ráðist inn í Svíþjóð, skömminni skárra væri að Þjóðverjar Hitlers tækju Svíþjóð en Rússar. Í dagbók sinni lýsti Lindgren hins vegar einnig andúð á nazistum og Hitler.

Í sjálfsævisögu sinni The Magic Lantern lýsir Ingmar Bergman því þegar hann var 16 ára skiptinemi í Þýskalandi og hreifst af orkunni í fjöldahreyfingu nazista, hann hefði síðar ekki trúað sínum eigin augum þegar hann sá myndir frá fangabúðum nazista, hann hefði fyllst örvæntingu og yfirþyrmandi sjálfsásökunum.

Ingvar Kamprad viðurkenndi að hann hefði hrifist af nazistum og starfað í ungliðahreyfingu þeirra í Svíþjóð í seinni heimsstyrjöldinni. Síðar lýsti hann þessu sem „mestu mistökum lífs míns“.

Hér hefur oftar en einu sinni verið minnt á þau orð, að saki maður andstæðing sinn um nazisma sýni það ekki annað en eigið rökþrot. Að sjálfgsögðu á þetta við um Pútin og málsvara hans.

Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, reyndi á dögunum að verja nazista-ásakanir Pútins með því að segja það marklaus gagnrök að Zelenskíj Úkraínuforseti væri af gyðingaættum – það hefði jú runnið gyðingablóð í æðum Hitlers! Fordæmingu á þessum ummælum svarar rússneska utanríkisráðuneytið með því að herða á formælingum sínum í garð Zelenskíjs. Segja embættismenn í Úkraínu að orð og gerðir Rússa jaðri við afneitun á gyðingaofsóknum nazista og sýni aðeins hve gyðingahatur sé rótgróið meðal rússneskra ráðamanna.

Séð úr fjarlægð er þetta orðaskak Rússa ógeðfellt og óhugnanlegt. Pútin og hans menn fara með staðreyndir eftir því sem hentar eigin söguskýringum til að réttlæta óhæfuverk og fjöldamorð.