3.10.2022 9:30

Pútin og lygaáróðurinn

Hvarvetna í Evrópu árétta stjórnmálamenn að ekki sé unnt að leyfa Pútin að ná yfirhöndinni í upplýsingastríði í löndum þeirra á sama tíma og Úkraínumenn yfirbugi rússneska herinn á vígvellinum.

Nú þegar við blasir að her Rússa er á undanhaldi í Úkraínu herðir Vladimir Pútin Rússlandsforseti á áróðri, undirróðri og upplýsingafölsunum til að hafa áhrif á almenningsálitið á Vesturlöndum í von um að grafa undan stuðningi ríkisstjórna þar við Úkraínustjórn. Þetta áróðursstríð birtist í ýmsum myndum hér á landi eins og annars staðar í opnum, frjálsum lýðræðisríkjum.

DDFFAGNUONY3GRJH5FBNBT2RNEÍ þessu ljósi ber meðal annars að skoða forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag (3. október) þar sem rætt er við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra í tilefni af innlimun Rússa á fjórum héruðum Úkraínu 30. september og ógeðfelldri ræðu sem Pútin flutti þar sem hann sakaði vestrænar þjóðir meðal annars um djöfladýrkun. Utanríkisráðherra segir á forsíðunni:

„Það er full alvara á bak við það hjá okkur að styðja við Úkraínu eins og kostur er og því verkefni er ekki lokið. Það mun bæta þar í, enda eru þau í raun að berjast á öllum mögulegum vígstöðvum. Allt yfir í það að reka samfélagið frá degi til dags. [...]Landamæri Úkraínu breytast ekki þótt einn maður ákveði að svo hafi gerst og undirriti pappíra þess efnis, eftir árásir, ofbeldi og brot á alþjóðalögum. Ekki er hægt að ítreka það nógsamlega hversu mikið við Íslendingar eigum undir að það sé einmitt ekki þannig.“

Hvarvetna í Evrópu árétta stjórnmálamenn að ekki sé unnt að leyfa Pútin að ná yfirhöndinni í upplýsingastríði í löndum þeirra á sama tíma og Úkraínumenn yfirbugi rússneska herinn á vígvellinum.

Í gær, sunnudaginn 2. október, birtust kaflar á íslensku úr ræðu Pútins á vefsíðunni vardberg.is eins og sjá má hér . Þegar þessi frásögn hafði birst á Facebook leið ekki á löngu þar til einhver kom inn á þráðinn og sagði eitthvað á þá leið að það væri nú margt til í orðum Pútins. Hann væri með öðrum orðum marktækur í svívirðingum sínum í garð Vestursins. Þegar þessum orðum var andmælt greip Pútin-málsvarinn til gamalkunnra bragða, Pútin væri ekki endilega verri en vestrænir ráðamenn. Þessi samanburðarfræði stunduðu stuðningsmenn Sovétríkjanna á árum áður til að sanna þá kenningu að stjórnarhættir þar væru jafnvel betri en í lýðræðisríkjunum.

Þetta léttvæga Rússa-tröll sem lét þarna til sín heyra er ekki einsdæmi um óværuna sem er að finna í netheimum hér eins og annars staðar þegar litið er til þeirra sem taka að sér að bera blak af Pútin í von um að hafa áhrif á almenningsálitið.

Sérfræðingar benda á að fyrsta markmið þeirra sem stunda áróður fyrir Rússa sé ekki að afla sér trausts heldur að rugla fólk í ríminu með því að afflytja staðreyndir og beina umræðum inn á ákveðnar brautir.

Rússar beita þeirri aðferð við upplýsingafalsanir sínar að lýsa Úkraínu sem spilltu ríki sem ógni öryggi Vestursins, segir Michael Sheldon, hjá Bellingcat rannsóknarblaðamannahópnum í Amsterdam sem sérhæfir sig í að sannreyna fréttir frá Rússlandi. Þá sagði hann á fundi í nefnd ESB-þingsins í liðinni viku að Rússar færðu sig í vaxandi mæli til þeirrar áttar grafa undan sannreyndum upplýsingum með rangfærslum sínum og lygum.

Ross Burley frá Centre for Information Resilience í London sagði að Rússar litu á sannleikann sem óvin sinn. „Rússneskar upplýsingafalsanir líkjast helst martröð, þar er dregið fram það versta í okkur, það sem okkur finnst verst að trúa og óttumst mest og það er magnað upp með algrími á samfélagssíðum.“

Burley sagði að væri litið til áróðurs flokka lengst til hægri í Evrópu og stuðnings Rússa við slíka flokka kæmi í ljós að frá því á fimmta áratugnum hefði ekkert ríki lagt þessum flokkum innan ESB meiri stuðning en Rússar.

Hér á landi birtast í fjölmiðlum skýr dæmi um sama tón í málflutningi þeirra sem skipa sér á jaðarinn til hægri og vinstri þegar kemur að því að enduróma boðskap Pútins og óvild í garð Vestursins. Full ástæða er til varðstöðu á þessum vettvangi. Við upphaf COVID-faraldurisns gerði þjóðaröryggisráð átak til að upplýsa almenning um markvissa upplýsingaóreiðu í tengslum við hann. Vegna stríðs Pútins í Úkraínu er fyllsta ástæða til átaks í nafni þjóðaröryggis gegn rússneskum undirróðri og upplýsingafölsunum.