24.2.2022 9:39

Pútin breytir Úkraínu í vígvöll

Lygar rússneskra stjórnvalda halda áfram til að réttlæta ofbeldi þeirra og stríðsaðgerðir. Frá Kreml hafa vikum saman borist yfirlýsingar um að rússneska hernum yrði ekki beitt til innrásar.

Sjónvarpsmyndir frá Kiev nú að morgni fimmtudags 24. febrúar sýna langar bílaraðir þegar fólk reynir að komast út úr borginni á flótta undan innrásinni sem rússneski umsátursherinn hóf að fyrirmælum sem Vladimir Pútin Rússlandsforseti gaf um klukkan 03.00 að íslenskum tíma í nótt 05.00 rússneskum tíma.

Pútin sagði að um „sérstaka hernaðaraðgerð“ væri að ræða í Donbas (austurhluta Úkraínu, „alþýðulýðveldi“ aðskilnaðarsinna með viðurkenningu Rússa). Pútin sagði tilgang hernaðaraðgerðarinnar að vernda íbúana sem hefðu mátt þola „þjóðarmorð af hálfu stjórnvalda í Kiev undanfarin átta ár“. Þá sagðist hann ætla afvopna Úkraínustjórn og bola nazistum úr valdastólum í Kiev. Sendiherra Rússa hjá Sameinuðu þjóðunum sagði að hernaðurinn beindist ekki gegn almennum borgurum í Úkraínu heldur „juntunni“, herforingjastjórninni, í Kiev.

Pútin sagði að Rússar mundu „tafarlaust“ svara hverjum sem reyndi að hindra framkvæmd aðgerðar hans. Herlögum var lýst í Úkraínu og snúist til varna. Á Vesturlöndum er ábyrgðinni lýst á hendur Rússum. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kom saman til fundar. Fordæmingin á stjórn Rússlands og Pútin er hörð. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna hvatti Pútin í nafni mannúðar að leggja niður vopn og kalla her sinn heim. Herförin kynni að leiða til blóðugrar stórstyrjaldar.

Pútin sagði að ekki vekti fyrir Rússum að hernema land Úkraínu, þótt her hans bryti alþjóðalög og fullveldi Úkraínu að fyrirmælum hans. Fréttir frá Úkraínu sýna að árás Rússa er ekki bundin við austurhluta Úkraínu.

C654cff_1645691165759-webinter-0822-ukraine-attaque-russeLygar rússneskra stjórnvalda halda áfram til að réttlæta ofbeldi þeirra og stríðsaðgerðir. Frá Kreml hafa vikum saman borist yfirlýsingar um að rússneska hernum yrði ekki beitt til innrásar. Allt var þetta sagt í blekkingarskyni eins og raunar var afhjúpað af stjórnvöldum í Washington og London sem hafa lengi varað við yfirvofandi innrás.

Barnaskapur þeirra hér á landi sem láta eins og afsaka megi valdbeitingu Pútins með vísan í lygar hans nær sem betur fer ekki inn á alþingi. Fréttir þaðan sýna mikla samstöðu þingmanna allra flokka og nauðsyn þess að fylkja liði með bandamönnum austan hafs og vestan. Hér verða stjórnvöld að taka ákvarðanir sem falla að öllum sameiginlegum aðgerðum á vettvangi NATO.

Ágúst Andrésson, ræðismaður fyrir Rússa á Íslandi, sagði í Morgunblaðinu í gær: „Mín persónulega skoðun er að Ísland eigi, sem herlaust land, ekki að taka afstöðu í stríðsátökum á erlendri grundu. Við eigum að tala fyrir friði en ekki stríði og vera í sömu stöðu og Sviss í því efni.“

Að láta eins og Svisslendingar sitji hjá þegar Pútin skapar blóðvöll í Úkraínu er móðgun við þá og lygi. Ræðismaðurinn ætti að hafa dug til að biðjast afsökunar og segja af sér ræðisstörfunum. Hann ætti einnig að biðja lesendur Morgunblaðsins afsökunar á að hafa látið þessi orð falla í von um að geta selt nokkra kjötskrokka til Rússlands.