18.5.2020 10:01

Púðurskot miðflokksmanns

Ólafur þarf örugglega að hafa minni áhyggjur af sínum gamla flokki í þessu efni en Miðflokknum undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Á fundi Varðbergs fyrir nokkrum árum spurði ég á hvaða punkti samstaðan um þjóðaröryggismál mundi bresta. Hvenær brystu þanþolið hjá VG öfl innan flokksins reyndu að bregða fæti fyrir aðgerðir sem aðrir teldu nauðsynlegar í öryggismálum.

Hefði einhver á fundinum sagt að VG ætti aðild að ríkisstjórn og myndi leggjast gegn viðhaldsverkefnum mannvirkja í þágu þjóðaröryggis eða framkvæmdum til að bæta aðstöðu í höfninni í Helguvík hefði það hvorki þótt trúverðugt né stórmál með heildarhagsmuni í huga. Fréttir herma að þetta hafi þó gerst í óformlegum viðræðum á vettvangi stjórnarflokkanna.

Þetta hefði ekki þótt trúverðugt vegna þess hve mikil sýndarmennska er að leggjast gegn framgangi verklegra framkvæmda af þessu tagi og ekki stórmál vegna þess að tímasetning framkvæmda af þessu tagi er ávallt matsatriði en nú bar þær á góma vegna lélegs atvinnuástands á Suðurnesjum.

433D59EFDC1C5D8DB5179E58D776FC604C0EDA88AE3446E47D40B92710B86917_713x0Sigmundur Davíð veitti valdatöku Steingríms J. og Jóhönnu brautargengi í lok janúar 2009. (Mynd: Visir.)

Í ljósi allrar framvindu öryggismála á Norður-Atlantshafi undanfarin tvö og hálft ár og þar með þátttöku íslenskra stjórnvalda í aðgerðum á því sviði er ljóst að ríkisstjórnin undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG, stendur við allar skuldbindingar sem felast í þjóðaröryggisstefnunni.

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, skrifar um þetta mál í Morgunblaðið í dag (18. maí) og segir að forysta VG sýnist „komast upp með að leggja bann við varnarframkvæmdum þótt þær séu í samræmi við þjóðaröryggisstefnu sem í stjórnarsáttmála er sögð liggja til grundvallar samstarfi flokkanna“.

Þetta segir þingmaðurinn þótt Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafi í Morgunblaðinu laugardaginn 16. maí lýst tillögu sinni um þetta mál sem hluta af aðgerðum til að bregðast við óvenjulegum aðstæðum í atvinnumálum en ekki við brýnum þjóðaröryggishagsmunum. Ráðherrann tekur fram að viðhaldsþörf á svæðinu hverfi ekki þó ekki hafi orðið af framkvæmdum nú. „Þetta voru aðstæður sem sköpuðust í vor og við vorum beðin um að leggja fram tillögur. Að þessu sinni hlaut mín ekki brautargengi,“ sagði utanríkisráðherra.

Ólafur Ísleifsson sem á sínum tíma bauð sig fram til trúnaðarstarfa innan Sjálfstæðisflokksins án þess að hljóta brautargengi, fór inn á þing sem frambjóðandi Flokks fólksins en situr nú í þingflokki Miðflokksins lýkur grein sinni á þessum orðum:

„Ýmsir hljóta að spyrja þessa dagana hvort ekki sé það manntak í Sjálfstæðisflokknum sem dugi til að hrinda af sér þessari ráðstjórn VG á flokknum.“

Ólafur þarf örugglega að hafa minni áhyggjur af sínum gamla flokki í þessu efni en Miðflokknum undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Í Morgunblaðinu í dag birtist umsögn mín um 20 ára afmælisrit VG. Þar vitna ég í makalausa frásögn af því hvernig Sigmundur Davíð kom Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni til valda og þar með mestu óheillastjórn aldarinnar.