21.8.2024 9:53

Próf í fang þingmanna

Við blasir markmið mennta- og barnamálaráðherra að afmá orðið próf úr lögum um grunnskóla með því að stilla alþingismönnum upp við vegg á haustmánuðum. Standast þingmenn prófið?

Grunnskólanemendur koma nú saman að nýju að loknu sumarleyfi. Umræðurnar undanfarnar vikur um skort á samræmdum könnunarprófum, væntanlegan matsferil og leyndina yfir stöðu einstakra skóla sem hluta af heild færast inn á alþingi þegar það kemur saman.

Seinagangur í mennta- og barnamálaráðuneytinu og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS) við að þróa og innleiða námsmatskerfi sem nefnt er matsferill leiðir til þess að mennta- og barnamálaráðherra neyðist til að ná í gegn lagabreytingu fyrir áramót til að hindra að til sögunnar komi að nýju skylda til að leggja fyrir könnunarpróf í grunnskólum.

Nú er í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp um þetta efni og er frestur til umsagnar til 2. september. Tilgangur frumvarpsins er ekki aðeins fyrrgreind „redding“ heldur einnig að afmá orðið próf úr grunnskólalögum. Í greinargerð um 3. gr. frumvarpsins er lagt til að „orðið könnunarpróf sé fellt brott og þess í stað komi orðin samræmt námsmat eða matstæki. Af sömu ástæðu er lagt til brottfall orðsins „prófa“....“

Þá segir einnig í greinargerðinni: „Markmiðið er að skapa hringrás mats og kennslu sem er mikilvægur grunnur markvissra kennsluhátta og auðveldar kennurum að einstaklingsmiða nám.“

Umræðurnar undanfarið um áform ráðuneytisins hafa ekki orðið til neins því að í greinargerðinni segir: „Í samráði um efni frumvarpsins kom skýrt fram að upplýsingar um námsmat eigi að vera aðgengilegar. Er talið rétt að koma til móts við þessi sjónarmið með því að lögfesta skyldu um reglulega birtingu upplýsinga um stöðu skólastarfs.“

Istockphoto-492198113-612x612

Næst reynir á alþingismenn hvort þeim takist að vinna sig í gegnum frumvarpið og hugmyndir höfunda þess með hagsmuni nemenda og foreldra að leiðarljósi. Öll vinna hér við þessi mál hefur frá árinu 2020 tekið mið af sjónarmiðum þeirra sem telja að hanna þurfi sérstakt kerfi hér á landi um mat á skólastarfi og keyra það í gegn án tillits til tíma og kostnaðar.

Sinnuleysið við miðlun upplýsinga og tímafresti leiddi til þess að 23. júlí sá umboðsmaður barna sig knúinn til að óska eftir upplýsingum um samræmt námsmat og skýrslu um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum í bréfi til mennta- og barnamálaráðherra. Var frestur til að svara gefinn til 19. ágúst.

Á vefsíðu umboðsmanns barna má sjá svar mennta- og barnamálaráðuneytisins dags. 19. ágúst 2024. Ber stuttaralegt svarið þess merki að meira hafi verið hugsað um dagsetningu bréfsins en efni þess, ráðuneytið hafi kosið að falla ekki enn einu sinni á tíma.

Í bréfi ráðuneytisins er sú skýring meðal annars gefin á rýru svari þess að öll áætlun um innleiðingu áformanna, sem nú eru komin í tímaþröng, ráðist af því hve alþingismenn verði fljótir að samþykkja það sem ráðuneytið leggur fyrir þá nú í haust.

Við blasir markmið mennta- og barnamálaráðherra að afmá orðið próf úr lögum um grunnskóla með því að stilla alþingismönnum upp við vegg á haustmánuðum.  Standast þingmenn prófið?