Pot Sigmundar Davíðs
Að óathuguðu máli hefði mátt ætla að formaður tveggja þingmanna flokks legði áherslu á jákvæða baráttu til að auka eigið fylgi í stað þess að gerast hælbítur Sjálfstæðisflokksins.
Á sínum tíma gerðist það oft í þingumræðum að einn andstæðinga okkar sjálfstæðismanna sagðist „í fullri vinsemd“ vilja benda á það sem mætti betur fara í stefnu okkar og störfum. Ábendingarnar og vinsemdin áttu að gera sjálfstæðismenn tortryggilega og minnka við okkur almennan stuðning.
Minningar um atvik af þessu tagi vöknuðu við lestur greinar eftir Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, í Morgunblaðinu í dag (15. maí) undir fyrirsögninni: Vinsamlegar ábendingar.
Flokksformaðurinn beinir þessum ábendingum til Sjálfstæðisflokksins. Sigmundur Davíð gefur sér eigin forsendur og leggur síðan út af þeim eins og honum hentar til að sverta flokkinn í augum lesenda. Þetta er einkennileg árátta og óþörf umhyggja. Að óathuguðu máli hefði mátt ætla að formaður tveggja þingmanna flokks legði áherslu á jákvæða baráttu til að auka eigið fylgi í stað þess að gerast hælbítur Sjálfstæðisflokksins.
Upplýsingafalsanir á borð við þær sem Sigmundur Davíð stundar eru af svipuðum toga og það sem fram kemur í enn einni lygagreininni sem Mikhail Noskov, sendiherra Rússlands á Íslandi, skrifar í Morgunblaðið í dag undir fyrirsögninni: Hugleiðingar um leiðtogafund Evrópuráðsins í Reykjavík. Rússum var vikið úr ráðinu í mars 2022 eftir 26 ára aðild að því. Innrás þeirra í Úkraínu braut gegn öllum meginatriðum í samþykktum ráðsins og markmiðum. Síðan hefur Alþjóðasakamáladómstóllinn sakað Vladimir Pútin Rússlandsforseta um stríðsglæpi vegna brottnáms tugþúsunda barna frá Úkraínu.
Sendiherrann gefur sér rússneskar forsendur og ræðst síðan á Evrópuráðið fyrir að fallast ekki á þær. Sendiherrann leyfir sér meðal annars að skamma Evrópuráðið fyrir að gæta ekki hagsmuna úkraínskra barna. Ósvífni barnaræningjanna í nafni rússneska ríkisins er takmarkalaus.
Sigmundur Davíð komst til æðstu metorða í Framsóknarflokknum þegar hann var í skyndingu kjörinn formaður hans árið 2009 og Sjálfstæðisflokkurinn studdi hann sem forsætisráðherra á árunum 2013 til 2016.
Ætla mætti af ólund Sigmundar Davíðs í garð sjálfstæðismanna að þeir hefðu gert eitthvað á hans hlut. Sjálfskaparvítin eru hins vegar verst og formaður Miðflokksins verður að skoða pólitíska vegferð sína í samhengi við Framsóknarflokkinn. Þar er að finna upphaf eyðimerkurgöngu hans.
Fyrir viku ræddi ég um Ísland og Evrópusambandið við forystumann Viðreisnar á fundi í Reykjanesbæ. Þar var enn einu sinni staðfest sú skoðun að Ísland standi utan ESB á meðan Sjálfstæðisflokkurinn fylgir þeirri stefnu. Annars vegar standa ESB-aðildarsinnar og senda „vinsamlegar ábendingar“ til sjálfstæðismanna án þess að hafa þrek til að berjast hart fyrir aðild og hins vegar eru Sigmundur Davíð og félagar og agnúast út í aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu (EES) án þess að þora að krefjast brottfarar af svæðinu.
Þetta er aum hálfvelgja á báða bóga. Sjálfstæðisflokkurinn stendur þetta pot af sér eins og Evrópuráðið styrkist þegar það mótar skýra afstöðu gegn stríðsglæpum Rússa.