13.5.2024 9:08

Poppfræðingur á villigötum

Stjórnmálavæðingin hér blasti við þegar RÚV sá til þess að til þátttöku í forkeppni hér var fenginn Palestínuarabi frá Tel Aviv með það að markmiði að hann yrði fulltrúi Íslands í Malmø.

Þeir sem fylgdust með Eurovision-söngvakeppninni í beinni útsendingu frá Malmø á þremur kvöldum hljóta að dáðst að því hve vel Svíum fór framkvæmdin úr hendi. Úr varð mikil skraut- og ljósasýning eins og til var stofnað og náði hún til meira en 100 milljón sjónvarpsáhorfenda um heim allan.

Frá upphafi var ljóst að hópur fólks vildi nýta keppnina núna í pólitískum tilgangi og ná sér niðri á Ísraelum eftir að þeir brugðust harkalega við árás Hamas-hryðjuverkamanna inn í land sitt 7. október 2023.

Hér á landi fór ekki fram hjá neinum að innan ríkisútvarpsins (RÚV) var leynt og ljóst unnið að því að stjórnmálavæða keppnina eins og raunar um árið þegar hún var haldin í Tel Aviv í Ísrael.

Stjórnmálavæðingin hér blasti við þegar RÚV sá til þess að til þátttöku í forkeppni hér var fenginn Palestínuarabi frá Tel Aviv með það að markmiði að hann yrði fulltrúi Íslands í Malmø.

Aðgerðarsinnarnir sem stóðu að þessum gjörningi náðu ekki sínu fram því að þeir sem kusu fulltrúa Íslands völdu Heru Björk. Hart var sótt að henni eftir sigurinn og reynt að letja hana til þátttöku í Malmø.

Screenshot-2024-05-13-at-09.05.46Skjáskot af síðu RÚV: Arnar Eggert Thoroddsen í fréttatíma sjónvarps.

Yfirstjórn RÚV tók þátt í að ala á tortryggni í garð keppninnar með því að segja að hún ætlaði ekki að ákveða hvort farið yrði til Malmø heldur yrði það undir sigurvegaranum í forkeppninni hér komið. Með þessum orðum var ýtt undir heitingar í garð Heru Bjarkar.

Menningarmálaráðherrann vildi ekki einu sinni taka af skarið um þátttökuna og sagði að það væri undir utanríkisráðherra komið hvernig að málum yrði staðið! Skýrari skilaboð um að hér væri um utanríkispólitískan viðburð að ræða var varla unnt að senda.

Sama kvöldið og Hera Björk söng fyrir allan heiminn í Malmø efndu aðgerðarsinnar hér til samstöðusöngs gegn keppninni og þátttöku í henni og var forseti Íslands meðal aðgerðarsinnanna.

Eftir að allt varð um garð gengið og Ísrael lenti, með dyggum stuðningi íslensks almennings, í hópi fimm efstu ríkjanna (Ísland var neðst allra) bauð RÚV Arnari Eggert Thoroddsen, félags- og poppfræðingi og aðjúnkt við Háskóla Íslands, í beina útsendingu í fréttatíma sjónvarps að kvöldi 12. maí. Hann sagði um keppnina: „Hún er algert klúður.“ Mótmæli gegn henni væru skiljanleg þar sem fólki hefði ofboðið framganga Ísraels í Palestínu og þá sagði hann:

„Það er eitt land þarna sem er helsti styrktaraðili Eurovision. Það er Ísrael. Það er einhvern veginn búið að kaupa sig inn í keppnina, það er verið að nýta hana í einhvern veginn mjög skrýtnum tilgangi. Einhvers staðar þarf að stíga niður og mér finnst þetta komið út í algjöra vitleysu.“

Hvílík öfugmæli! Þeir sem breyttu þessari keppni í stjórnmálaviðburð núna voru aðgerðarsinnar gegn Ísrael. Það blasir við þegar litið er á framgöngu þeirra með aðstoð RÚV hér á landi. Þeir urðu hins vegar undir og þá er brugðist við á þann hátt sem birtist í orðum Arnars Eggerts og RÚV lætur auðvitað þar við sitja, þótt höfuðklúðrið sé þess. Það er hér sem er nauðsynlegt að taka á þeirri „algjöru vitleysu“ sem birtist meðal aðgerðarsinna gegn Ísrael vegna Eurovision 2024.