3.12.2020 10:40

Pólitísk ofbeldismenning Pírata

Það er þessi pólitíska ofbeldismenning sem einkennir framgöngu sumra kjörinna fulltrúa Pírata hér. Þennan þátt í stjórnmálastarfi Pírata ber að ræða á opinberum vettvangi.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, brotleg við siðareglur alþingismanna, telur sig helstu vörn þjóðarinnar gegn spillingu. Stóryrði hennar og ásakanir í garð annarra eru í samræmi við grunnþátt sem einkennir störf Pírata í Evrópu.

Í Morgunblaðinu í dag (3. des.) er frétt um athugasemdir skoðunarmanna við nýbirtan ársreikning Pírata fyrir árið 2019. Skoðunarmennirnir segja reikninga vanti í bókhaldið fyrir 1,3 m. kr. Þeir segja rekstur flokksins of kostnaðarsaman sé ætlunin að safna í sjóð vegna kosninga á árinu 2021. Ársreikningsgerð hafi dregist úr hömlu. Bókhald Pírata-flokksins á þó samkvæmt flokkslögum að vera opið á vefsíðu hans, uppfært samtímis ásamt samþykktum ársreikningum. Bent er á að 99,5% tekna Pírata komi úr vösum skattgreiðenda. Þær námu alls 78.446.731 krónu árið 2019, 96,1% kom úr ríkissjóði og 3,4% frá sveitarfélögum. Félagsgjöld flokksmanna námu aðeins 0,5% af tekjum hans. Aðeins 34.600 kr. bárust sem frjáls framlög eða 0,04% teknanna, segir í frétt Morgunblaðsins.

Fréttin sýnir að engin félagsleg hreyfing er að baki Pírötum hér á landi Áhrifamenn fyrir flokkinn út á við hafa oftar en einu sinni kvartað undan „flötu stjórnkerfi“ hans sem leiðir til klíkumyndanna. Hatrammar árásir ýmissa flokksbrodda eins og Þórhildar Sunnu í garð andstæðinga flokksins endurspegla hörkuna í baktjaldamakki innan flokksins meðal annars um ráðstöfun á því opinbera fé sem til hans rennur.

Big_PPEU_4e26571c8b4817edb1d5a50cecdd370dNýjasta efnið á vefsíðu Pírata snýr að þátttöku þeirra í evrópskum samstarfsvettvangi Pírata, PPEU. Þar hefur Oktavía Hrund, fulltrúi íslenskra Pírata (PPIS), gegnt varaformennsku í stjórn en hún hætti í lok nóvember og við tók Katla Hólm Þórhildardóttir fyrir hönd PPIS. Í frétt á vefsíðu PPIS 28. nóvember 2020 segir meðal annars:

„Fulltrúanefnd íslenskra Pírata hefur áhyggjur af starfsumhverfi innan evrópska samstarfsvettvangsins PPEU – evrópskir Píratar.

Þrátt fyrir að hafa sett á laggirnar trúnaðarráð innan PPEU hefur fulltrúanefndin áhyggjur af áreiti, áreitni og ofbeldismenningu innan evrópskra Pírata og telur hana skaðlega fyrir pólitískt samstarf.

Ef PPIS nær kosningu til setu í stjórn PPEU á nýjan leik munu íslensku fulltrúarnir beita sér fyrir því að innleitt verði verklag þar sem lögð verður áhersla á bann við mismunun, einelti, áreitni, þar á meðal kynferðislegri og kynbundnu áreiti, og ofbeldi..“

Þá kemur fram í yfirlýsingu frá Oktavíu Hrund á vefsíðunni að hún treysti sér ekki til þátttöku í fjarfundi fulltrúanefndar evrópskra Pírata af því að hún sætti sig ekki við áreitið sem mæti henni þar, hún líti ekki á nefndina sem safe place – öruggt svæði.

Það er þessi pólitíska ofbeldismenning sem einkennir framgöngu sumra kjörinna fulltrúa Pírata hér. Þennan þátt í stjórnmálastarfi Pírata ber að ræða á opinberum vettvangi. Það auðveldar skilning á innantómum skömmum og svívirðingum Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur.