31.10.2025 9:34

Planið víkur fyrir verðbólgu

Ný mæling sýnir hins vegar að verðbólga er komin í 4,3%. Að hert aðhald í ríkisútgjöldum hafi vikið fyrir húsnæðispakkanum sýnir að planið og sleggjan fara endanlega út í veður og vind.

Varla bjóst nokkur við að ríkisstjórnin myndi leggja fram svonefndan húsnæðispakka án þess að einhverjir teldu eitthvað jákvætt við hann? Með þá staðreynd í huga er einkennilegt að það þyki fréttnæmasti punkturinn við pakkann að framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og fleiri segi að ýmislegt jákvætt megi finna í pakkanum.

DSC09650Fyrsti húsnæðispakkinn kynntur 29. október 2025 (mynd: stjórnarráðið).

Meðal þátttakenda á blaðamannafundinum þegar pakkinn var kynntur miðvikudaginn 29. október var Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hún leit svo björtum augum á pakkann að hún gleymdi að taka af sér sólgleraugun á fundinum. Þar kynnti hún áform um að reisa nýtt 4.000 íbúða hverfi í Úlfarsdal.

Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, segir við Morgunblaðið í dag (31. okt.) að svæðið sem ætlað sé undir hverfið í Úlfarsdal ætti almennt að rúma helmingi færri íbúðir og að ofuráhersla á niðurgreitt húsnæði, félagslegt húsnæði og fjölgun leiguíbúða í einstaka hverfum kunni að ýta undir stéttskiptingu í samfélaginu.

Einar Þorsteinsson, oddviti framsóknarmanna í borgarstjórn, segir við blaðið að borgarstjóri hafi kynnt 4.000 manna nýja byggð í Úlfarsárdal án þess að fjallað hafi verið um það áður á vettvangi borgarráðs. Þarna sé um að ræða milljarðatuga hagsmuni borgarinnar.

Að borgarstjórn sé sett í þá stöðu að þurfa að taka afstöðu til málsins án allrar kynningar frá fjármála- og áhættustýringarsviði og fjármálastjóra sé ófært og í ætt við ráðstöfun Dags B. Eggertssonar á bensínstöðvalóðunum sem sæti mikilli gagnrýni innri endurskoðunar borgarinnar.

Gjöf borgarstjóra í pakkanum er greinilega meingölluð eins og annað sem kemur frá þeim sem stjórna lóðaúthlutunum fyrir hönd meirihlutans.

Á dögunum sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra að ríkisstjórnin setti í forgang að móta stefnu í húsnæðismálum, það væri forgangsmál sitt við stjórn efnahagsmálanna að leysa þá krísu.

Morgunblaðið ræðir við Gunnar Erlingsson, forstöðumann skuldabréfamiðlunar Arion banka, sem segir það vonbrigði að í nýjum húsnæðispakka sé slegið af borðinu að herða frekar aðhald í ríkisrekstri, að svo stöddu. „Þetta setur Seðlabankann í snúnari stöðu en ella,“ segir Gunnar.

Miðað við planlagða sleggjupólitík Kristrúnar í efnahagsmálum með aðhald í ríkisfjármálum sem kjarnapunkt er það í raun stórfréttin vegna húsnæðispakkans að nú hafi verið horfið frá aðhaldi í ríkisrekstri undir hennar forystu.

Vegna samdráttar í hagkerfinu hafa ýmsir gert því skóna að boðuð yrði stýrivaxtalækkun 19. nóvember næstkomandi. Ný mæling sýnir hins vegar að verðbólga er komin í 4,3%. Að hert aðhald í ríkisútgjöldum hafi vikið fyrir húsnæðispakkanum sýnir að planið og sleggjan fara endanlega út í veður og vind.

Að kvöldi húsnæðispakkadagsins ræddi Bergsteinn Sigurðsson við Kristrúnu Frostadóttur um pakkann í Kastljósi á þeim nótum að fáir skildu útlistanir ráðherrans og fréttamaðurinn sá ekki helsta fréttapunktinn. Skrýtið?