21.9.2020 11:49

Píratismi í skjóli Viðreisnar

Sabine Leskopf, Samfylkingu, forseti borgarstjórnar, hefur ekki stuðning eða vilja til að hindra offors Pírata þegar þeir fara með himinskautum í málflutningi sínum.

Viðreisn fékk fæst atkvæði þingflokkanna átta sem eiga menn á þingi eftir kosningarnar í október 2017. Flokkurinn fékk aðeins 13.122 atkvæði, 6,7%, og fjóra þingmenn kjörna, hafði sjö áður. Flokkur fólksins fékk 6,9% og einnig fjóra þingmenn en tveir þeirra hafa gengið til liðs við Miðflokkinn á kjörtímabilinu eins og til umræðu var á fundinum alræmda á Klausturbar 20. nóvember 2018.

Í sveitarstjórnarkosniningum árið 2018 fékk Viðreisn tvo borgarfulltrúa kjörna í Reykjavík og 4.812 atkvæði (8,2%) og myndaði síðan meirihluta í borgarstjórn undir forystu Dag B. Eggertssonar, Samfylkingu, með VG og Pírötum. Í borgarstjórninni hefur oddviti Viðreisnar, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, gegnt formennsku í borgarráði og dregur ekki af sér að dásama samstarfið.

Borgarstjorn2019_1Frá fundi borgarstjórnar Reykjavíkur (mynd: Reykjavíkurborg).

Píratar eru með minna fylgi í borgarstjórn en Viðreisn, 7,7%, en einnig tvo borgarfulltrúa. Viðreisn hefur veitt Pírötum sjálfdæmi í skipulags- og umferðarmálum borgarinnar þar sem bíllaus lífsstíll ræður ferð.

Þá stendur Viðreisn að baki yfirlýsingum borgarstjóra um skipulagsmál þótt rangar séu eins og um að Minjastofnun leggi stein í götu Sundabrautar. Yfirlýsingin var dæmigerð tilraun borgarstjóra til að klína eigin dugleysi á aðra. Sundabraut hefur í meira en tvo áratugi verið ágreiningsefni á vettvangi borgarstjórnar. Deilur verða ekki settar niður nú þrátt fyrir samgöngusáttmála við ríkið.

Sabine Leskopf, Samfylkingu, forseti borgarstjórnar, hefur ekki stuðning eða vilja til að hindra offors Pírata þegar þeir fara með himinskautum í málflutningi sínum.

Þriðjudaginn 15. september 2020 var á dagskrá borgarstjórnar liður um hagkvæmt húsnæði fyrir almennan markað. Til máls tók Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata. Þar setti hún fram þá samæriskenningu að Samherji hefði fjárhagsleg tök á Eyþóri Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins. Þetta sjáist á eignarhaldi á Morgunblaðinu og nýjum miðbæ á Selfossi á kostnað Samherja, nýi miðbærinn sé verk Eyþórs.

Þarna raðar Píratinn saman einhverjum brotum sem hún telur sig þekkja og býr til kenningu í þeim tilgangi einum að ófrægja annan borgarfulltrúa. Eyþór sat ekki í bæjarstjórn Selfoss þegar íbúar þar samþykktu að miðbærinn skyldi rísa. Vinstriflokkar á Selfossi stóðu að því að búa í haginn fyrir miðbæinn í þágu fjárfesta.

Það var einfaldlega engin innstæða fyrir samsæriskenningu Píratans. Dóra Björt fór með rangt mál eins og Dagur B. þegar hann ætlaði að kenna Minjastofnun um eigin vandræði vegna Sundabrautar.

Einsýni Dóru Bjartar er svo mikil að hún taldi svör Eyþórs ekki duga fyrir sig! Þá kvaddi Sigurborg Ósk, hinn Píratinn, sér hljóðs og sakaði fólk um að „verja Samherja“ þegar ósannindum Dóru Bjartar var mótmælt.

Benedikt Jóhannesson, stofnandi Viðreisnar, boðar eigið þingframboð suðvesturhorninu til að setja popúlistum skorður. Hvernig væri að byrja í eigin flokki í borgarstjórn Reykjavíkur? Viðreisn leyfir þar píratismanum að blómstra.