23.7.2019 9:27

Pírati óttast farveituna Uber

Lesendum er látið eftir að móta sér skoðun á þessum orðum. Þau eru út og suður eins og svo margt annað sem frá meirihluta borgarstjórnar kemur.

Hvarvetna er viðkvæmt mál þegar hróflað er við rekstrarumhverfi leigubíla. Oft hafa breytingar á henni vakið harðar deilur. Ökumenn leigubíla eru víða áhrifamikill þrýstihópur sem hefur mótandi áhrif á almenningsálitið.

Á þingi í vetur sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra meðal annars í svari við fyrirspurn að hér þyrfti löggjöf um leigubíla og horfa á þá þróun sem geti þar orðið með pantanaþjónustu, deilibílanotkun og slíku, sem hluta af almenningssamgöngukerfi okkar. Horft væri á breytingar sem aðrar þjóðir væru að gera.

Í drögum að frumvarpi að nýjum lögum um leigubifreiðar stendur til að afnema fjöldatakmarkanir á leyfum til leigubílaaksturs. Vinnur samgönguráðuneytið nú úr umsögnum sem bárust um frumvarpið á meðan það lá í samráðsgátt á vefsíðu stjórnarráðsins.

Í frétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag (23. júlí) segir að meðal þess sem hlaut gagnrýni sé að í frumvarpinu séu íþyngjandi skilyrði sem komi í veg fyrir að farveitur á borð við Uber geti hafið starfsemi á Íslandi.

LeigubillAf þessu tilefni ræðir blaðið við píratann Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur, formann skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, sem leitast við að skýra tvískinnunginn í afstöðu borgaryfirvalda til frumvarpsins. Þau vilja annars vegar aflétta fjöldatakmörkunum á leigubílum en hins vegar verði „að stíga varlega til jarðar þegar kemur að svona fyrirtækjum eins og Uber“.

Sigurborg Ósk segir

„Það er mjög gott að fá betri nýtingu á hverju farartæki fyrir sig en það er hins vegar ekki gott fyrir borgina og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ef umferðin er að fara að aukast vegna tilkomu þessara fyrirtækja. [...] Það er praktískt fyrir okkur að hafa færri bílastæði og nýta borgina betur. Uber getur hjálpað til við þetta en getur líka aukið umferð. “

Lesendum er látið eftir að móta sér skoðun á þessum orðum. Þau eru út og suður eins og svo margt annað sem frá meirihluta borgarstjórnar kemur. Sigurborg Ósk er þó einfaldlega andvíg bílaumferð eins og samfylkingarmaðurinn Hjálmar Sveinsson, forveri hennar sem formaður skipulags- og samgönguráðs, sem taldi ekki skynsamlegt að bæta umferðaræðar þær fylltust hvort sem er af bílum.

Viðreisn á tvo fulltrúa í borgarstjórn. Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnir, sagðí á þingi í mars 2019:

„Það gleður mig að [...] menn eru að horfa á farveiturnar, deilibílana, pantanaþjónustu og annað slíkt. Ég er sannfærður um að þetta skiptir gríðarlega miklu máli [...] þarf þjónustan einfaldlega að vera aðgengileg nútímaheimilum og nútímasamfélagi og á viðráðanlegu verði. Þar kemur náttúrlega inn í heilbrigð samkeppni eins og annars staðar. Með heilbrigðri samkeppni er verið að innifela öryggissjónarmið ella er samkeppnin ekki sérstaklega heilbrigð.“

Ástæða er til að spyrja hver sé afstaða borgarfulltrúa Viðreisnar til farveitna, deilibíla og pantanaþjónustu. Fylgja þeir borgarfulltrúa Pírata að málum eða skoðun flokkssystur sinnar á alþingi?