10.1.2023 10:17

Pírati í stjórnarskrárfýlu

Arndís Anna fer með rangt mál þegar hún segir að látið sé „eins og engin vinna hafi verið lögð í nýju stjórnarskrána á sínum tíma“. Telur hún þetta „hreina vanvirðingu“ við þjóðina.

Í sáttmála annars ráðuneytis Katrínar Jakobsdóttur frá 28. nóvember 2021 segir að sett verði af stað vinna sérfræðinga um ákvæði stjórnarskrár um alþingi, kosningar og kjördæmaskipan, dómstóla og eftir atvikum önnur ákvæði, svo sem mannréttindaákvæði. Framhald vinnu við stjórnarskrárbreytingar verði metið í framhaldi af samráði við fræðasamfélagið.

Í samræmi við þetta hefur forsætisráðherra falið fjórum sérfræðingum að taka saman greinargerðir um þá kafla stjórnarskrárinnar sem fjalla um alþingi, dómstóla og mannréttindi. Þá verður haldið áfram vinnu við endurskoðun kosningalaga.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu 6. janúar 2023 segir að þessi sérfræðivinnan sé í „samræmi við það hvernig ákveðið var í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna að halda áfram þeirri heildstæðu yfirferð yfir stjórnarskrána sem hófst á síðasta kjörtímabili. Þá voru meðal annars tekin fyrir ákvæði um auðlindir og umhverfismál og kafli um handhafa framkvæmdarvalds“.

Gert er ráð fyrir því að sérfræðingarnir skili greinargerðum sínum til forsætisráðuneytisins eigi síðar en 1. september 2023.

Allt er þetta skýrt og augljóst auk þess að vera í samræmi við niðurstöður þingkosninganna í september 2021 þar sem flokkarnir sem töluðu fyrir þær mest um „nýju stjórnarskrána“ Samfylking og Píratar fengu ekki það brautargengi sem þeir vildu. Í höndum þessara flokka breyttist „nýja stjórnarskráin“ í gjörning með veggjakroti og öðru. Nú hefur það svo gerst að forysta nýju Samfylkingarinnar hefur ekki áhuga á „nýju stjórnarskránni“ og hefur sagt skilið við samfylgdina með Pírötum í stjórnarskrármálinu.

Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur lýsir í ritgerð sinni Landfesti lýðræðis sem Ugla gaf út í bók árið 2021 hve erfitt er að henda reiður á það sem fellur undir „nýju stjórnarskrána“. Helstu talsmenn hennar eru ekki alltaf samstiga um hvert sé efni hennar. Ritgerðin er einstök úttekt á þeim ruglingi öllum.

Vimeothumbsstefnur-2Píratar breyttu „nýju stjórnarskránni“ í gjörning án efnislegs inntaks.

Í Morgunblaðinu í dag (10. janúar) bregst Arndís Anna K. Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, illa við sérfæðivinnunni vegna stjórnarskrárinnar á vegum forsætisráðuneytisins. Hún fer með rangt mál þegar hún segir að látið sé „eins og engin vinna hafi verið lögð í nýju stjórnarskrána á sínum tíma“. Telur hún þetta „hreina vanvirðingu“ við þjóðina.

Þetta segir þingmaðurinn blákalt þó í umboði sérfræðinga forsætisráðherra sé þeim falið að „taka mið af þeirri stjórnarskrárvinnu sem fram hefur farið hér á landi frá 2005“. Það var á fyrri hluta árs 2009 sem Jóhanna Sigurðardóttir, Samfylkingu, hratt vinnu við „nýju stjórnarskrána“ af stað sem forsætisráðherra. Þá segir pírata-þingmaðurinn:

„Ég veit ekki alveg hvernig Katrín ætlar að gera þetta. Hún virðist vera að gera þetta svolítið upp á eigið eindæmi.“

Óþarft er að ala á tortryggni á þennan hátt. Forsætisráðherra gerir þetta á grundvelli stjórnarsáttmálans í umboði kjósenda eftir að þeir ákváðu að Píratar ættu ekki erindi í ríkisstjórn.