14.12.2022 9:21

Pírati í kuldakasti

Píratar hafa lært af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra að kenna ríkisstjórninni um allt sem miður fer við stjórn borgarinnar og þjónustu við íbúa hennar.

Undir forystu Samfylkingar og samstarfsflokka hennar í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur í um það bil aldarfjórðung hefur framtaki í orkumálum verið sérstaklega hampað. Það var til dæmis litið á það sem sérstaka rós í hnappagat meirihlutans þegar ráðist var í smíði nýrra höfuðstöðva Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Allir vita nú hvernig staðið var að frágangi þeirrar byggingar og hvaða feluleikur var stundaður vegna kostnaðar við hana.

Þá átti á sínum tíma að standa að netvæðingu borgarinnar á ævintýralegan hátt með því að sameina flutning á rafmagni og netgögnum. Vegna þess misheppnaða ævintýris var ráðist í að stofna Gagnaveituna undir hatti OR, fyrirtækið heitir núna Ljósleiðarinn og er farið með upplýsingar um fjárhagslega stöðu þess sem algjört trúnaðarmál. Skákað er í því skjóli að um opinbert hlutafélag er að ræða.

Nú þegar kuldakast gengur yfir verður að grípa til skömmtunar á heitu vatni í höfuðborginni. Spurningar vakna um hvort gengið hafi verið til byggðaþéttingar án þess að styrkja grunnvirkin neðanjarðar. Ofanjarðar er þeirri stefnu fylgt að ekki megi fjölga akreinum vegna þess að þá fjölgi bara bílum. Skyldi þeirri stefnu fylgt neðanjarðar að ekki megi stækka flutningsleiðir af því að þá aukist bara neyslan? Höftin séu vegna þess að afkastageta kerfisins sé ekki meiri?

Á sínum tíma var það helst talið OR til bjargar að hækka gjaldskrána af því að gott veður leiddi til minni notkunar á heitu vatni. Áætlanir OR miðast ef til vill aðeins við spár um hlýnun jarðar og þess vegna verði að loka heitum laugum þegar kólnar – að minnsta kosti leiðir aukin notkun á heitu vatni í kuldakasti ekki til þess að gjaldskráin lækki – þvert á móti.

PpimagesPíratar eru nú á öðru kjörtímabili sínu í meirihluta með Samfylkingunni í Reykjavík. Þeir hafa lært af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra að kenna ríkisstjórninni um allt sem miður fer við stjórn borgarinnar og þjónustu við íbúa hennar.

Píratinn Lenya Rún Taha Karim varaþingmaður sagði á alþingi þriðjudaginn 13. desember:

„Virðulegi forseti. Fyrir tveimur vikum benti ég á þá hlægilegu staðreynd að það væru fleiri bílastæðahús en gistiskýli fyrir heimilislausa á höfuðborgarsvæðinu. Eins benti ég á þá staðreynd að gistiskýli væri lokuð frá klukkan tíu á morgnana til klukkan fimm síðdegis og því hefur heimilislaust fólk ekki í nein önnur hús að vernda en bílastæðahús eða bókasöfn.

Forseti. Veðurspá gerir ráð fyrir 15 stiga frosti um helgina og það liggur ekki enn þá fyrir hvort opnunartími gistiskýla verði framlengdur. Höfum það í huga að ekki allir komast yfir höfuð að í gistiskýlum og stundum neyðist fólk hreinlega til að sofa úti í kuldanum. Það eitt og sér er óforsvaranlegt. Hvernig getur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sætt sig við að svo fátt sé um úrræði fyrir þau sem verst eru sett í samfélaginu?“

Píratinn spyr þarna viljandi spurningar á vitlausum stað, þingmaðurinn vill ekki svar heldur villa um hver ber pólitísku ábyrgðina í þessu máli. Hún er í ráðhúsinu en ekki þinghúsinu.