9.11.2023 10:24

Pírati gegn frelsi fjölmiðla

Ekkert af þessu er sagt í fljótræði í hita leiksins heldur er hér um skrifaðan, ígrundaðan texta að ræða sem fluttur er í þeim markvissa tilgangi að ritskoðun skuli tekin upp.

Á borgarstjórnarfundi þriðjudaginn 7. nóvember ræddi Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, um borgarfjármálin í ljósi frásagna af þeim í fjölmiðlum og taldi réttmætt að þeir fjölmiðlar sem segðu ekki fréttir af fjárhagsstöðu borgarinnar á þann veg sem henni og Degi B. þóknaðist fengju ekki opinberan fjárstuðning.

1450640

Sigríður Dögg Auðunsdóttir og Dóra Björt Guðjónsdóttir (samsett mynd mbl.is).

Friðjón Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vakti athygli á ræðu Dóru Bjartar með færslu á Facebook. Hér skulu nefndir punktar úr ræðu píratans eins og þeir birtust á mbl.is 8. nóvember:

1. „Eftir að Fréttablaðið datt upp fyrir hefur Morgunblaðið fengið enn meira svigrúm til að stjórna umræðunni þegar kemur að þeirri stanslausu herferð gegn meirihlutanum í borginni með því markmiði að Sjálfstæðisflokkurinn nái yfirhöndinni einhvern tímann aftur.“

2. „Það er í raun risastórt lýðræðislegt vandamál hvernig ástandið er á fjölmiðlamarkaði í dag því almenningur fær kolskakka mynd af raunveruleikanum.“

3. „Morgunblaðið dirfðist lengi vel að vera með sérstakan undirglugga á forsíðu mbl.is [innskot blm: knippi um tengd fréttamálefni] um fjárhagslega erfiðleika Reykjavíkur. Það er varla hægt að hugsa sér grímulausa pólitíska stöðutöku. Finnst okkur þetta bara í lagi?“

4. „Ég myndi vilja sjá fjölmiðla sem fá yfir 100 milljónir [úr] ríkissjóðskassanum og hæstan styrk við sinn rekstur af öllum einkareknum fjölmiðlum á Íslandi sýna af sér faglegri og lýðræðislegri vinnubrögð. Ég myndi raunar halda að eðlilegt væri að það væri einhvers konar forsenda að sýna af sér hlutleysi og styðja við lýðræðishlutverk fjölmiðla til að fá fé úr ríkissjóði inn í sinn rekstur ef þú spyrð mig.“

Ekkert af þessu er sagt í fljótræði í hita leiksins heldur er hér um skrifaðan, ígrundaðan texta að ræða sem fluttur er í þeim markvissa tilgangi að ritskoðun skuli tekin upp við úthlutun ríkisstyrkja til annarra en ríkisútvarpsins sem hefur allt sitt fjárhagslega á hreinu með stuðningi skattgreiðenda. Píratinn hefur ekkert við ríkisfréttirnar að athuga, þær eru Dóru Björt þóknanlegar.

Meira að segja ríkisfréttamanninum Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formanni Blaðamannafélags Íslands, blöskrar málflutningur píratans. Hún sagði á Facebook 8. nóvember að með orðum sínum gæti Dóra Björt „beinlínis grafið undan fjölmiðlafrelsi“. Væru fjölmiðlar ríkisstyrktir yrði að gera það „án allra pólitískra afskipta“ á grundvelli gagnsærra reglna.

Kerfið sem nú gildir um þennan opinbera stuðning gefur því miður færi á opinberri forræðishyggju í anda píratans. Það er því meingallað og dapurlegt að menningarráðherra hafi mistekist að skapa fjölmiðlastarfi betri og gagnsærri umgjörð.