Pírataþingmaður í vanda
Aumlegust er þó staða píratans Jóns Þórs Ólafssonar sem vill að skrifstofa alþingis ákvarði hvort hann hafi gengið fram með sæmandi hætti.
Á sínum tíma þegar ákveðið var að stíga skref til að miðla upplýsingum á netinu um dóma urðu um það nokkrara umræður meðal annars á vettvangi dómsmálaráðuneytisins. Í ræðu sem ég flutti á fundi Dómarafélagsins í nóvember 2004 sagði ég meðal annars að nýlega hefði ég hleypt af stokkunum átaki í upplýsingatæknimálum í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og væri því ætlað að ná til ráðuneytisins og stofnana á þess vegum. Þar kæmi rafræn birting dóma til álita, skoða þyrfti hvort nota ætti netið í þessu skyni og hve langt réttlætanlegt væri að ganga í því efni.
Jón Þór Ólafsson pírati í ræðustól alþingis (mynd mbl.is).
Eins og kunnugt er gildir nú reglan um rafræna birtingu dóma og er ekki deilt um réttmæti hennar þótt ólíkar skoðanir kunni að ríkja um hve langt skuli gengið í einstökum málum af tilliti til persónuverndar.
Rafræn birting á efni úr dagbókum lögregluembætta á netinu er einnig álitaefni. Samfélagsmiðlar gagnast lögreglu vel í samskiptum við almenning eins og til dæmis má sjá á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem er mikilvægur upplýsingabrunnur fyrir marga.
Þingmenn hafa undanfarið rætt efni sem fjölmiðlar höfðu úr dagbók lögreglunnar á aðfangadag 2020 þar sem sagt var frá því að lögregla hefði haft afskipti af því sem fram fór í opinberum listsýningarsal, Ásmundarsal, að kvöldi Þorláksmessu. Margt fleira gerðist þetta sama kvöld þar sem spurning vaknaði um sóttvarnareglur, til dæmis voru tónleikar utan dyra í miðborg Reykjavíkur og efnt var til beinnar útsendingar í Kastljósi sjónvarpsins frá Lækjartorgi til að vekja athygli á mannlífi í miðborginni þrátt fyrir heimsfaraldurinn. Í Ásmundarsal var þó talin sérstök hætta á ferðum og gat lögreglan þess í dagbók sinni að þar hefði einn „háttvirtur ráðherra“ verið á ferð. Lögregla er enn að rannsaka málið!
Færslan í lögregludagbókina sem fangaði athygli fréttamanna, sérstaklega ríkisútvarpsins, varð til þess að dómsmálaráðherra hringdi tvisvar í lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu til að fræðast um færslureglurnar. Miðað við alla forsögu mála vegna rafrænna birtinga efnis á vegum stofnana dómsmálaráðuneytisins er eðlilegt að ráðherra málaflokksins kynni sér framkvæmd birtingarreglna. Hann ber ábyrgð og á í raun síðasta orðið um þær. Afskipti af framkvæmd reglnanna eiga ekkert skylt við rannsókn einstakra mála ráðherrann stendur utan lögreglurannsókna. Sjálfstæði ákæruvalds og saksóknara var tryggt með lögum fyrir um 60 árum.
Umræður um símtöl ráðherrans snúast um hvort þau hafi verið skráð samkvæmt einhverjum matskenndum reglum og klukkan hvað ráðherrann hringdi í lögreglustjórann. Aumlegust er þó staða píratans Jóns Þórs Ólafssonar sem vill að skrifstofa alþingis ákvarði hvort hann hafi gengið fram með sæmandi hætti við frásögn sína af meðferð málsins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins sem hann stýrir! Að þingmaður telji sig eiga að lúta forsjá skrifstofu alþingis um störf sín og yfirlýsingar er í raun brot á stjórnarskránni.
Skynsamlegasta úrræði þingmannsins er að segja af sér nefndarformennskunni, þá yrði nefndin starfhæf að nýju.