28.9.2018 10:43

Píratastjórn á alþingi

Þetta endurspeglar ekki annað en óeiningu og vantraust milli Pírata sjálfra.

Agnes Bragadóttir birtir fróðlega skýringu á stöðu Pírata á alþingi í Morgunblaðinu í dag (28. sept.). Samstarfsmönnum þeirra á þingi finnst þeir „afskaplega erfiðir í samstarfi“. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, og Halldóra Mogensen, varaformaður þingflokksins, sækja illa fundi formanna þingflokka með forseta alþingis og tilviljun virðist ráða hver kemur í þeirra stað. Agnes segir:

„Þetta hafi orðið til þess að þingmenn Pírata hafi á stundum ekki verið með á nótunum hvað varðar dagskrá þingsins og hleypt vissum óróa í þingsal af þeim sökum.“

Innan raða Pírata ríkir það sjónarmið að þingmenn þeirra séu ekki bundnir af sameiginlegum ákvörðunum á fundi þingforseta með formönnum þingflokka nema að gefnu skriflegu samþykki. Þetta endurspeglar ekki annað en óeiningu og vantraust milli Pírata sjálfra. Þeir hafa samþykkt að tilkynna forseta alþingis skriflega hvort þingflokkur þeirra og þingflokksformaður samþykki tillögu þingforseta, þetta lýtur meðal annars að tilhögun funda, lengd ræðutíma eða annarra slíkra hluta sem ákveða þarf til að tryggja framgang mála á þingi.

Althingi3Þegar Agnes leitaði eftir áliti þingflokksformanna eða þeirra sem sitja í forsætisnefnd alþingis á þessu ráðslagi Pírata og ræðu Helga Hrafns þingmanns þeirra um það vildi enginn nema píratinn Jón Þór Ólafsson tjá sig: „Þeir töldu að slíkt væri einungis til þess fallið að stökkva olíu á eldinn og sögðust ekkert vilja segja, sem reitt gæti Pírata til reiði.“

Þetta orðalag bendir til þess að einhvers konar reiði- eða frekjustjórn Pírata ráði máli manna í Alþingishúsinu. Fólk hafi fengið svo upp í kok af yfirgengilegri framgöngu að það þegi til að halda friðinn. Að þetta andrúmsloft skapist á þjóðþinginu er stóralvarlegt

Á sínum tíma var vinnustaðasálfræðingur kallaður á vettvang til að skapa starfsfrið í þingflokki Pírata. Steingrímur J.  Sigfússon þingforseti ætti að fá hann á fundi sína með þingflokksformönnum lúti Þórhildur Sunna svo lágt að sækja slíka fundi.