Píratar styðja Dag B. eindregið
Dóra Björt styður Dag B. Eggertsson borgarstjóra 100% í braggamálinu og telur sjálfsagt að hann leiði umbótastarf sem snýr að vanrækslu hans sjálfs.
Þegar Halldór Auðar Svansson tók sem borgarfulltrúi Pírata þátt í að styðja Dag B. Eggertsson sem borgarstjóra árið 2014 setti hann sem skilyrði að stofnað yrði sérstakt ráð, stjórnkerfis- og lýðræðisráð, undir eigin formennsku. Var það verkefni ráðsins að „yfirfara stjórnkerfi Reykjavíkurborgar með það að markmiði að gera það einfaldara og markvissara“.
Besta einkunnin um hvernig til tókst í þessu efni sést í skýrslu innri endurskoðunar borgarinnar um braggamálið. Þar birtist lýsing á stjórnkerfi í rúst. Þrátt fyrir ábendingar um umbætur var allt látið reka á reiðanum.
Þær styðja alar Dag B. í braggamálinu. Líf Magneudóttir VG, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Viðreisn og Dóra Björt Guðjónsdóttir Pírötumþ
Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar og oddviti Pírata, tók við af Halldóri í formennsku þessa ráðs. Nafni þess var að vísu breytt eftir kosningarnar 2018. Það heitir nú mannréttinda- og lýðræðisráð. Miðað við hvernig Halldór stóð að eftirliti með stjórnkerfismálum í formennsku sinni er hvorki undarlegt að nafni ráðsins hafi verið breytt né að Dóra Björt styðji Dag B. Eggertsson borgarstjóra 100% í braggamálinu og telji sjálfsagt að hann leiði umbótastarf sem snýr að vanrækslu hans sjálfs sem höfuðs stjórnkerfis og stjórnsýslu borgarinnar.
Að vísu reynir Dóra Björt að gera sem minnst úr hópnum sem hún vill að Dagur B. leiði um eigin embættisverk. Í samtali á mbl.is laugardaginn 5. janúar segir hún:
„Mér finnst í raun of mikið gert úr skipun þessa hóps. Þetta er óformlegur hópur en ekki formlega skipuð nefnd [...] Þessi hópur hefur takmarkað pólitískt vald enda á hann eingöngu að móta tillögur byggðar á þessum niðurstöðum [innri endurskoðunar um stórgallaða stjórnkerfið] og svo mun borgarráð taka afstöðu til þeirra.“
Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, vill að sjálfsögðu fría Dag B. allri ábyrgð í braggamálinu eins og sjá má á ruv.is frá föstudeginum 4. janúar. Þar er meðal annars haft eftir henni: „Ég held akkúrat að hann [Dagur B.] eigi að sitja. Mér finnst það eins og að víkja ráðuneytisstjóra úr vinnu sem tekur á sínu eigin ráðuneyti. Niðurstaðan er ekki sú að Dagur beri ábyrgð á þessu.“
Hér skal því haldið fram að lægi fyrir skýrsla frá ríkisendurskoðun um jafn ömurlega stjórnsýslu innan ráðuneytis og lýst er í braggaskýrslunni yrði hvorki ráðherra né ráðuneytisstjóra þess ráðuneytis treyst fyrir að kippa málum í liðinn.
Borgarstjórinn í Reykjavík er með tvo hatta í braggamálinu – pólitískan og stjórnsýslulegan. Honum var um megn að leiða stjórnsýsluna og nú liggur fyrir að Píratar, Viðreisn, VG og Samfylking treysta honum pólitískt í málinu. Að gera þá kröfu til Sjálfstæðisflokksins eða annarra í borgarstjórn að þeir veiti borgarstjóranum pólitískt skjól í málinu er til marks um hroka eða ofsahræðslu.