17.12.2022 11:43

Píratar og pólitísk hræsni

Menn geta rétt ímyndað sér ramakvein þingmanna leyndarhyggjuflokkanna í borgarstjórn ef sambærileg andstaða gegn gagnsæi ríkti í þinghúsinu og nú í ráðhúsinu.

Á alþingi standa þingmenn Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar og kalla á skýrslur, rannsóknir og lögfræðiálit til að upplýsa allt er varðar ráðstöfun opinbers fjár, sölu banka eða uppgjör vegna ÍL-sjóðs.

Skýrslur eru unnar og álit eru gefin en aldrei er nóg að gerð. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Viðreisn, stendur hvað eftir annað í ræðustól alþingis og kvartar undan því að fá ekki að láta skattgreiðendur borga lögfræðiálit vegna frumvarps sem ekki hefur verið lagt fyrir þingið. Þegar henni er bent á að krafa hennar sé marklaus vegna skorts á þingfrumvarpi um málið segir Þorbjörg Sigríður að fjármálaráðherra hafi haldið blaðamannafund um málið og því eigi hún rétt á lögfræðiáliti! Helga Vala Helgadóttir, Samfylkingu, tekur undir hvert orð í þessum málatilbúnaði Þorbjargar Sigríðar. Fjármálaráðherra hefur þegar gefið þingmönnum skýrslu um málið og rætt hana.

Björn Leví Gunnarsson, pírati, sagði á þingfundi föstudaginn 16. desember:

„Núna erum við með N4-málið hérna fyrir þinginu og þar var afgreiddur hagsmunaárekstur á lokuðum meirihlutafundi. Á lokuðum meirihlutafundi greindi nefndarmaður í fjárlaganefnd frá því að hann hefði hagsmunaárekstur við eina af beiðnunum sem þar voru afgreiddar. Á nefndarfundi fjárlaganefndar var ekki greint frá þeim hagsmunaárekstri og ekki á þingfundi. Nei, við eigum bara að þurfa að treysta því að það hafi verið rétt greint frá og nægilega mikið greint frá því á fundi meiri hluta, eins og það dugi.“

Þetta er aðeins síðasta dæmið úr þingsal um kröfu þessa pírata um algjört gagnsæi við meðferð þingmála. Hann hefur lagt fram hundruð fyrirspurna til ráðherra til að árétta þrá sína eftir gagnsæi í stjórnsýslunni.

1073411

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Viðreisn, forseti borgarstjórnar vill ekki að málefni Ljósleiðarans séu rædd undir sérstökum dagskrárlið í borgarstjórn 20. desember 2022 (mynd:mbl/Kristinn Magnússon).

Flokkssystkini þeirra þriggja þingmanna sem hér haf verið nefndir sitja auk fulltrúa Framsóknarflokksins í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Miðað við málflutninginn og kröfurnar um gagnsæi og opna stjórnsýslu af hálfu fulltrúa þessara flokka á alþingi mætti ætla að í ráðhúsinu og á fundum borgarnefnda og borgarstjórnar gerðist allt fyrir opnum tjöldum og farið væri að öllum óskum minnihlutans um upplýsingar og umræður.

Ekki þarf annað en lesa fyrirsagnir Morgunblaðsins dag eftir dag um baktjaldamakk meirihluta borgarstjórnar vegna viðskipta borgarfyrirtækisins Ljósleiðarans við fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn til að átta sig á þar er stundaður mikill opinber feluleikur.

Í dag, 17. desember, er til dæmis skýrt frá því að fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingar, Pírata og Framsóknarflokks hafi hafnað því að málefni Ljósleiðarans, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, verði á dagskrá borgarstjórnarfundar þriðjudaginn 20. desember. Ljósleiðarinn skuldar að sögn 14 milljarða króna og stendur til að bæta 3 milljörðum við skuldirnar með kaupum á grunnneti Sýnar.

Menn geta rétt ímyndað sér ramakvein þingmanna leyndarhyggjuflokkanna í borgarstjórn ef sambærileg andstaða gegn gagnsæi ríkti í þinghúsinu og nú í ráðhúsinu. Pírötum er tíðrætt um pólitíska ábyrgð á alþingi og hvað í henni felst, þeir ættu að líta í eigin barm og huga að inntaki orðanna pólitísk hræsni.