27.12.2020 10:05

Píratar gera áhlaup

Flokkur Pírata býr við „flata“ stjórn eins og það hefur verið kallað. „Freki kallinn“ nær þar undirtökunum.

Flokkur Pírata býr við „flata“ stjórn eins og það hefur verið kallað. „Freki kallinn“ nær þar undirtökunum. Valdahópar pírata skiptast til dæmis við Vonarstræti í Reykjavík á milli pírata í borgarstjórn og á alþingi.

Pirates-attack-wallpaper-previewStóryrðaflaumur er eitt af einkennum málflutnings pírata. Þar fara fremstar Dóra Björt Guðjónsdóttir í borgarstjórn og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir á alþingi.

Eftir að lögreglan tilgreindi einn „háttvirtan ráðherra“ í hópi fólks sem braut gegn sóttvarnareglum í Ásmundarsal í Reykjavík að kvöldi Þorláksmessu og Bjarni Benediktsson sagði á aðfangadag að hann hefði litið þar inn á list-sölusýningu birti Dóra Björt árás á Bjarna og Sjálfstæðisflokkinn á FB-síðu sinni þar sem sagði m.a.:

„Sjálfstæðisflokkurinn er ekki bara óábyrgur flokkur heldur einfaldlega hættulegur. Ekki einu sinni heimsfaraldur rýfur samstöðu flokksins um sjálfhverfu og ábyrgðarleysi. Við skulum sameinast um að koma þessu fólki úr valdastöðu. Sjálfstæðisflokkurinn er geislavirkur.“

Þarna er hópur fólks sem átti engan hlut að máli í Ásmundarsal á Þorláksmessu úthrópaður og sagður „geislavirkur“, það er lífshættulegur. Hatrinu og óvildinni er ekki leynt.

Í hádegi daginn eftir, jóladag, er rætt við Jón Þór Ólafsson, þingmann pírata, í fréttum ríkisútvarpsins. Hann sagði að innan þingflokks pírata ræddu menn hvort flytja ætti vantrauststillögu á Bjarna Benediktsson. Umræðurnar væru á byrjunarstigi.

Til að „toppa“ Jón Þór greip Þórhildur Sunna til þess ráðs að kvöldi annars dags jóla að bjóða forystumönnum VG og Framsóknarflokksins að píratar myndu styðja minnihlutastjórn þessara tveggja flokka enda styddi minnihlutastjórnin sambærilega leið í stjórnarskrármálinu og farin var vorið 2013 þegar tillögum stjórnlagaráðs var ýtt til hliðar. Píratar og Samfylking endurflytja þær tillögur núna.

Holur hljómur er í þessu tilboði Þórhildar Sunnu eins og fleiru sem hún segir. Hún ræður ekki yfir nægum þingstyrk til að verja ríkisstjórn VG og framsóknar falli. Þórhildur Sunna veðjar á að Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, gangi í lið með sér.

Logi fór í stóryrðakeppni vegna dagbókarfærslu lögreglunnar strax á aðfangadag og sagði að Bjarni Benediktsson hlyti að „íhuga alvarlega“ að segja af sér að öðrum kosti væri „undarlegt ef hann nyti ennþá fulls trausts annarra flokka í ríkisstjórn og meirihluta Alþingis“.

Þegar þetta er skráð hefur ekki komið fram hvernig formenn VG og framsóknar taka samstarfstilboði Þórhildar Sunnu. Þau hljóta fyrst að velta fyrir sér hvort hún tali fyrir hönd þingflokks pírata og kannski Samfylkingar líka. Þá hljóta þau að rifja upp raunir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra þegar stjórn hennar lafði síðustu metra kjörtímabilsins 2013 með stuðningi Þórs Saaris og Birgittu Jónsdóttur pírata og stjórnarflokkarnir fengu síðan hrikalega útreið í kosningum – sögulega niðurlægingu.