Píratar brutu starfsreglur
Staðfest er að fulltrúi Pírata í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis (SEN), Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, braut starfsreglur alþingis sunnudaginn 13. nóvember 2022.
Staðfest er að fulltrúi Pírata í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis (SEN), Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, braut starfsreglur alþingis sunnudaginn 13. nóvember 2022 þegar hún sendi úttektarskýrslu ríkisendurskoðunar á sölu 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars 2022 til annarra þingmanna Pírata.
Skýrslunni var dreift síðdegis þennan sunnudag til nefndarmanna í SEN og skyldi farið með hana sem trúnaðarmál þar til ríkisendurskoðandi kæmi á fund nefndarinnar og gerði grein fyrir skýrslunni mánudaginn 14. nóvember. Að kvöldi sunnudags flutti ríkisútvarpið frétt þar sem efni skýrslunnar var rakið.
Í Morgunblaðinu í dag (30. nóv.) segir Birgir Ármannsson forseti alþingis að fái nefndarmenn í þingnefnd í hendur trúnaðarupplýsingar séu þeir bundnir trúnaði og megi ekki deila þeim með öðrum. Gætu nefndarmenn deilt trúnaðarupplýsingum með samflokksmönnum á þingi eða starfsmönnum þingflokka „væru ákvæði um trúnað nefndarmanna marklaus“.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði á Facebook í gær:
„Nei, ég sendi skýrsluna ekki til neins. Þegar ég settist niður til að lesa hana var það fyrsta sem ég sá á netinu fréttir í RÚV og Kjarnanum sem fjölluðu um innihald skýrslunnar.“
Hann hafði sem sagt skýrsluna undir höndum
sunnudaginn 13. nóvember og í Morgunblaðinu í gær sagði hann starfsmenn
nefndasviðs alþingis hafa veitt þingmönnum heimild til að „deila trúnaði“ þvert
á skýr fyrirmæli í starfsreglum. Lét Björn Leví á Facebook eins og
starfsreglurnar væru ekki samþykktar.
Þingflokkur Pírata hefur starfsreglur fastanefnda alþingis að engu við meðferð trúnaðargagna (mynd: vefsíða Pírata).
Í Morgunblaðinu í dag vildi Birgir Ármannsson ekki ræða hvert yrði framhald þessa trúnaðarbrots þingmanna Pírata en sagði að málið yrði „ekki látið niður falla“. Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingu, er formaður SEN og ber að sjá til þess að starf nefndarinnar sé á þann veg að traust ríki í garð hennar.
Í þingræðu í gær sagði Teitur Björn Einarsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, að Björn Leví Gunnarsson hefði „frjálslega brigslað tilteknum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um að brjóta trúnað, að því er virðist eingöngu vegna þess að hann sjálfur hafði aðgang að skýrslunni“.
Réttilega taldi Teitur Björn um alvarlegt mál að ræða sem þarfnaðist skýringar. Í tilefni orða Björns Levís í Morgunblaðinu spurði Teitur Björn:
„Hvernig kvittaði nefndasvið Alþingis upp á þessa meðferð trúnaðarupplýsinga úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, eða veitti forseti sjálfur leyfi fyrir meðferð þessara upplýsinga eins og áskilið er í starfsreglunum? Það þarf að fá botn í þetta, herra forseti. Það er vandséð hvernig aðrar nefndir sem fara með viðkvæm málefni, eins og utanríkismálanefnd, eiga að geta fjallað um trúnaðarupplýsingar og viðkvæm mál ef þetta er staðan.“
Í mars 2022 sendi landsréttur Gunnari Inga Jóhannssyni lögmanni fyrir mistök trúnaðargögn sem hann kom til fjölmiðla. Málið var ekki rannsakað til hlítar og varpar skugga á landsrétt. Verði brotið á starfsreglum fastanefnda alþingis og lekinn í framhaldi af því ekki rannsakað til hlítar grefur það undan trú á þingnefndum og samskiptum við þær.