16.4.2020 13:36

Píratar beita COVID-19 gegn alþingi

Stjórnarandstaðan á alþingi notar nú COVID-19-heimsfaraldurinn og reglur um samkomubann til að hindra að unnt sé að ræða mál sem henni líkar ekki á alþingi.

Stjórnarandstaðan á alþingi notar nú  COVID-19-heimsfaraldurinn og reglur um samkomubann til að hindra að unnt sé að ræða mál sem henni líkar ekki á alþingi. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra hefur lagt fram frumvarp um vegaframkvæmdir sem fer fyrir brjóstið á Jóni Þór Ólafssyni, þingmanni Pírata. Til að hindra að þingið væri starfhæft að morgni fimmtudags 16. apríl smalaði stjórnarandstaðan fleiri en 20 þingmönnum í fundarsal þingsins og sleit þá Steingrímur J. Sigfússon þingforseti fundi. Samkomubannið mælir fyrir um að ekki megi fleiri en 20 koma saman.

„Það mega ekki vera nema 20 á efri hæð þingsins en inni í þingsal voru komnir 26 saman. Það var alveg skýrt enda var það stefna forsætisnefndar að vera ekki með þingfundi nema tvo í viku og þá væru það mál tengd COVID-19 sem ekki væri ágreiningur um. Ef það á ekki að virða það sem sóttvarnayfirvöld í landinu segja þá erum við bara að setja starfsfólkið okkar í hættu,“ sagði Jón Þór í samtali við mbl.is fimmtudaginn 16. apríl.

D6AD848A0FF90F934B1AA26D84BF50D45651A2DD27806A2C5C67E9EE628071C8_713x0Vilhelm á visir.is tók þessa mynd af þingmönnunum Helgu Völu Helgadóttur, Samfylkingu, og Jóni Þór Ólafssyni Pírata.

Er þetta í fyrsta sinn í sögunni sem minnihluti alþingis notar heimsfaraldur og sóttvarnabann til að hindra þingstörf. Meginregla þingskapa er að lágmarksfjöldi þingmanna verði að sækja fund til að hann sé lögmætur en hitt er nýmæli að unnt sé að valda ólögmæti með því að smala stjórnarandstæðingum á þingfund.

Á þingum annarra landa hefur verið gripið til ýmissa ráða til að þau séu starfhæf enda er almennt talið miklu skipta á tímum sem þessum að lýðræðislega kjörnir fulltrúar skiptist á skoðunum fyrir opnum tjöldum. Að fengnu þessu fordæmi stjórnarandstöðunnar hér gæti meirihluti þingmanna bundið enda á störf þingsins fram til 4. maí með því að fjölmenna á þingfundi.

Í samtalinu við mbl.is segir Jón Þór að hann hafi staðið vörð um „væntingar kjósenda og almannahag“ með því að bregða fæti fyrir þingfundinn.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir í tilefni af því að stjórnarandstaðan hindraði störf þingsins á FB-síðu sinni 16. apríl:

„Það er val forseta að setja það mál á dagskrá og val hans að slíta fundi án þess að þingmenn fengju að spyrja ráðherra í dagskrárliðnum óundirbúnar fyrirspurnir eins og samkomulag hafði verið um. Ég er ekki viss um að allir átti sig á hvað þetta er stórt lýðræðislegt mál, en fyrir mér er þetta algjört lykilatriði,“ skrifar Helga Vala í færslu á Facebook.“

Þessi orð bera með sér að Helga Vala vill ráða dagskrá þingsins á þessum erfiðu tímum og einnig telur hún að þingforseti hefði átt að halda þingfundi áfram þótt stjórnarandstöðuþingmenn hefðu fjölmennt til að gera honum það ókleift með vísan til samkomubanns í þágu sóttvarna.

Í fljótu bragði hefði mátt ætla að stjórnarandstaðan leyfði Pírötum einum að verða sér til skammar undir forystu Jóns Þórs Ólafssonar (ekki í fyrsta sinn). Þingmenn Pírata eru sex svo að dágóður hópur annarra stjórnarandstæðinga hefur lagt þeim lið til að gera alþingi óstarfhæft á þennan ólýðræðislega hátt.