7.5.2020 13:48

Pírata-uppákomur á alþingi

Á öðrum vinnustað yrði athyglissýki Pírata talin til marks um undarlegheit.

Þingmenn Pírata keppast um athygli á mismunandi furðulegum forsendum. Björn Leví Gunnarsson gengur um á sokkaleistunum eða virðir ekki almenna reglu um að karlmenn séu í jakka í þingsal. Til að árétta auglýsingamennskuna gerir hann síðan sem mest úr því finni einhver að klæðaburðinum. Almennt ber hann vott um virðingarleysi við alþingi en sértækt kann hann að höfða til kjósenda Pírata. Þingmenn flokksins keppa að minnsta kosti ekki um athygli með málefnalegu framlagi á þingi heldur einhverjum uppákomum sem eiga í raun ekkert skylt við efnisleg þingstörf. Á öðrum vinnustað yrði athyglissýkin talin til marks um undarlegheit.

Þegar þingmenn Pírata taka til máls um kjarasamninga á alþingi er það venjulega með þessum undarlegum formerkjum. Þeir bera ekki hag launþega fyrir brjósti heldur vilja þeir með útúrsnúningi eða rangfærslum gera Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra tortryggilegan.

1196109Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í ræðustól alþingis. (Mynd: mbl,is Kristinn Magnússon.)

Á alþingi í dag (7. maí) reyndi Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, að ala á úlfúð vegna þess að fyrr í vikunni hefði fjármálaráðherra sagt að forsendur lífskjarasamningsins stæðu tæpt vegna kórónaveirunnar. Halldóra spurði:

„Er hæstv. fjármálaráðherra að hóta þessum stéttum [í Eflingu] að ef þær falli ekki frá kröfum sínum muni hann segja upp lífskjarasamningunum? Ætla stjórnvöld ekki að standa við lífskjarasamningana í þeirri fjármálaáætlun sem von er á fljótlega?“

Fjármálaráðherra vék að gjörbreyttum aðstæðum í þjóðfélaginu en sagði síðan:

„Hvar hafa menn verið sem koma hingað upp og spyrja: Hvaða breyttu forsendur er ráðherrann að tala um?

Ég veit ekki hvað ég get gert fólki til hjálpar sem skilur ekki hvað hefur breyst. Það sem ég sagði um lífskjarasamningana, sem hv. þingmaður heldur að ríkisstjórnin hafi skrifað undir og sé aðili að en er ekki, er að lífskjarasamningarnir voru gerðir með stuðningi stjórnvalda milli aðila vinnumarkaðarins. Það er ekki á verksviði stjórnvalda að segja þeim upp...“

Halldóra Mogensen sagði þetta snúast um forgangsröðun, hún væri í þágu fyrirtækja en ekki fólks í „grunnstoðum samfélagsins“. Og fjármálaráðherra svaraði:

„Við erum einmitt að forgangsraða í það að verja opinbera þjónustu, samneysluna, á þessum gríðarlega erfiðu tímum og við tökum lán fyrir þessu öllu saman. Við tökum lán fyrir því að verja opinberu þjónustuna. Þá kemur hv. þingmaður og segir að vegna þess að við viljum ekki gera kjarasamninga sem eru umfram forsendur lífskjarasamninga við einhverjar tilteknar stéttir séum við ekki að forgangsraða rétt. Þetta er algjör þvæla.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, afskræmdi og spillti málstað hjúkrunarfræðinga þegar hún reyndi að nota hann til að vega að fjármálaráðherra. Nú tekur Halldóra Mogensen að sér að ganga erinda Sólveigar Önnu Jónsdóttur í þingsalnum og þykist bera grunnstoðir samfélagsins fyrir brjósti. Telji einhver það þjóna málstað sínum að vega að þessum grunnstoðum er það einmitt Sólveig Anna og félagar hennar í Sósíalistaflokki Íslands.