15.6.2017 9:30

Persónuvernd gagnvart risunum

Ég veit ekki hvar prentaða bókin týndist á milli mín og Amazon í maí. Því miður hef ég vaxandi áhyggjur af hefðbundinni póstþjónustu og öryggi í viðskiptum við hana.

Í gær ræddi ég við Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar, í þætti mínum á ÍNN. Hann er sýndur á stöðinni í allan dag og birtist einnig hér á síðunni. 

https://vimeo.com/221671063

Við ræddum um breytingar á lögum um persónuvernd sem taka gildi á EES-svæðinu í maí 2018. Satt að segja gerði kom mér á óvart að heyra hve miklar þessar breytingar eru og hver verða áhrif þeirra á réttarstöðu okkar borgaranna: þær gera einnig ríkar kröfur til þeirra sem bjóða þjónustu hvaða nafni sem hún nefnist.

Evrópulöggjöfin á þessu sviði er strangari en bandarískar reglur en þar er heimili risafyrirtækjanna sem safna mestum persónuupplýsingum og breyta þeim í verðmæti. Þar má nefna Facebook, Google og Amazon. Í krafti nýju Evrópureglnanna öðlumst við sem njótum þeirra rétt á hendur þessum fyrirtækjum um að þau virði reglurnar. Geri þau það ekki getum við leitað réttar okkar hjá Persónuvernd.

Sjón er sögu ríkari og bendi ég lesendum á að kynna sér samtal okkar Helgu. Fleiri verða örugglega undrandi en ég.

Í byrjun maí pantaði ég nýútkomna bók hjá Amazon í Bretlandi. Hún kostaði 19.58 pund og átti að berast mér fyrir 17. maí sagði Amazon

Þegar tilkynning um bókina var ekki komin í pósti í gær, 14. júní, ákvað ég að snúa mér til Amazon og skýra frá því að bókin hefði ekki borist mér. Viðbrögðin voru skjót og var mér tilkynnt innan nokkurra klukkustunda að 19.58 pund yrðu bakfærð á reikning minn.

Ég kannaði hvort kaupa mætti bókina á Kindle. Amazon benti mér að fara á Amazon í Bandaríkjunum, Amazon.com. Þar var bókin til sölu á Kindle fyrir 1.06 dollara. Keypti ég hana og innan tveggja mínútna var hún komin til mín.

Ég ætla ekki að reyna að skilja þetta.

Amazon geymir þessar upplýsingar um mig í gagnagrunni sínum og minnir reglulega á bækur sem fjalla um svipað efni og þessi eða eftir sama höfund. Á næsta ári þarf Amazon upplýst samþykki mitt til að geyma þessar upplýsingar og nota þær sér til framdráttar.

Ég veit ekki hvar prentaða bókin týndist á milli mín og Amazon í maí. Því miður hef ég vaxandi áhyggjur af hefðbundinni póstþjónustu og öryggi í viðskiptum við hana. Sjálfur hef ég sannreynt að bréf til mín hafa týnst. Hvort það gerðist við sendingu bókarinnar veit ég ekki en þökk sé tækninni gefst mér færi á að lesa hana – fyrir gjafverð á Kindle.