Peningalykt hjá Flokki fólksins
Inga telur ekki neinn mega efast lengur um að Flokkur fólksins sé stjórnmálaflokkur eftir að landsfundurinn samþykkti að breyta skráningu flokksins hjá skattinum.
Flokkur fólksins efndi til fyrsta landsfundar síns frá 2019 laugardaginn 23. febrúar. Visir segir að um 90 menn hafi sótt fundinn sem á Grand hótel. Allir fullgildir félagsmenn Flokks fólksins sem höfðu greitt félagsgjald sitt og skráð sig fyrir kl. 13.00 laugardaginn 15. febrúar áttu rétt til setu á fundinum.
Fyrir fundinn sagði Inga Sæland formaður við Spegil ríkisútvarpsins að ætlunin hefði verið að koma saman í höfuðstöðvum flokksins undir Grafarvogskirkju þar sem rými væri fyrir 100 manna fund. Það hefði hins vegar komið í ljós að rýmið yrði of lítið.
Þetta reyndist greinilega ekki rétt megi marka Vísi sem telja verður trúverðugri heimild miðað við margt af því sem Inga hefur sagt frá því að hún komst í sviðsljós fjölmiðlanna vegna stjórnarsamstarfsins með Kristrúnu Frostadóttur og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.
Á fundinum var Inga sjálfkjörin formaður áfram og Guðmundur Ingi Kristinsson varaformaður. Enginn sá ástæðu til að hrófla við þeim enda lýsir Inga sér sem pólitískri kraftaverkakonu og Guðmundur Ingi er sannfærður um að svo sé eins og allir hinir í Flokki fólksins.
Í Vísi segir að Inga hafi farið mikinn gegn Morgunblaðinu sem hún kallar „málgagn auðmanna“. Blaðið hafi „hamast á flokknum og sakað hann um þjófnað, óheiðarleika og vísvitandi blekkingar í tengslum við styrkjamálið svokallaða“.
Inga telur ekki neinn mega efast lengur um að Flokkur fólksins sé stjórnmálaflokkur eftir að landsfundurinn samþykkti að breyta skráningu flokksins hjá skattinum.
Dráttur Ingu á að laga flokkinn að gildandi lögum leiddi til áminningar frá skattinum og veldur deilum um hvort réttmætt hafi verið að greiða Flokki fólksins 240 m. kr. úr ríkissjóði á undanförnum árum.
Nú kemur í ljós hvort nýjar samþykktir flokksins leiði til þess að hann fái greiddar 70 m. kr. í styrk í ár.
Inga sagði að Flokkur fólksins ætlaði að „fara að byggja tíu þúsund nýjar íbúðir í Úlfarsárdal“. „Það er þarna á bak við Bauhaus,“ sagði Helga Þórðardóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins í einhverju viðtalanna sem birt voru þegar hún stóð að myndun nýja meirihlutans í borgarstjórn.
Inga sagði að Morgunblaðið hefði sakað flokk sinn „um þjófnað og óheiðarleika og vísvitandi blekkingar“. Sjálfstæðisflokkurinn og þrír aðrir flokkar sem voru mislengi að átta sig á skráningarmálum sínum hefðu aftur á móti verið látnir í friði af blaðinu.
Þetta eru ósannindi eins og of margt annað í málflutningi Ingu. Hún hefur nú fengið gamlan baráttumann í Samfylkingunni, Heimi Má Pétursson, sér til halds og trausts í málsvörn sem sækir styrk sinn einkum í skilgreiningu á hrútum og óþef af þeim. Í þingræðu 20. febrúar sagði Inga að „hrútspungafýla“ flæddi úr ritstjórn Morgunblaðsins í Hádegismóum þegar rætt væri um málefni Flokks fólksins. Vísir segir ekki hvaða lykt var á landsfundi Ingu. Er ekki að efa að þar hafi að minnsta kosti verið peningalykt.