26.1.2026 11:06

Peð í valdatafli í Samfylkingunni

Pétur Marteinsson verður að taka mun einarðlegri afstöðu til manna og málefna en til þessa. Hann endar annars aðeins sem peð í valdatafli í Samfylkingunni.

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri Samfylkingarinnar, fékk illa útreið í prófkjöri Samfylkingarinnar laugardaginn 24. janúar. Ráðandi öfl innan flokksins, stuðningslið Kristrúnar Frostadóttur, sendi óreyndan, fyrrverandi sjálfstæðismann en þekktan knattspyrnumann, Pétur Marteinsson, gegn borgarstjóranum. Hann hlaut rúm 3.000 atkvæði en Heiða Björg ekki nema rúmlega 1.600. Munaði aðeins 15 atkvæðum að annar nýliði, Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, hlyti annað sætið.

Screenshot-2026-01-26-at-11.03.40Pétur Marteinsson fagnar sigri laugardaginn 24. janúar 2026, (mynd;.mbl.is/Anton Brink).

Skúli Helgason sem setið hefur í borgarstjórn síðan 2014 sóttist eftir 2. sæti í prófkjörinu en hafnaði í því 4.. Dóra Björt Guðjónsdóttir sat í borgarstjórn fyrir Pírata frá 2018 þar til fyrir nokkrum vikum þegar hún gekk í Samfylkinguna. Hún bauð sig fram í 4. – 6. sæti í prófkjörinu en hafnaði í því 9.

Þessir þrír borgarfulltrúar störfuðu náið með Degi B. Eggertssyni í tíð hans sem borgarstjóra og hafa aldrei fundið að ágæti þeirrar stefnu sem þá var fylgt. Þeir uppskáru ekki mikið traust.

Skúli hefur lýst yfir að hann sé ánægður með 4. sætið og ætli að sitja þar. Dóra Björt virðist taka höfnuninni á sér með jafnaðargeði. Hún býst líklega við því að Heiða Björg verði ekki á listanum og þar með verði þar uppstokkun sem lyfti henni upp í hærra sæti til að halda fjölda karla í hófi.

Fyrir alþingiskosningarnar 30. nóvember 2024 fór Kristrún flokksformaður ekki leynt með skömm sína á Degi B. Eggertssyni og óánægju yfir að hann sæti á framboðslista með henni í Reykjavík norður – það mætti einfaldlega strika yfir nafn hans til að minnka líkur á að hann næði kjöri.

Andstaða Kristrúnar við það sem Dagur B. stóð fyrir sem borgarstjóri verður ekki til þess að hún mæli með því að Heiða Björg sitji á lista Samfylkingarinnar í vor og varla hvetur hún til þess að hlutur Dóru Bjartar verði bættur. Skúli Helgason er bróðir Helgu Völu sem yfirgaf þingflokk Samfylkingarinnar og sagði af sér þingmennsku eftir að Kristrún náði undirtökum í þingflokknum sem flokksformaður.

Það er sem sagt sögulegt uppgjör sem á sér stað á æðstu stöðum í Samfylkingunni í þessu prófkjöri í Reykjavík og enn á ný kemur Kristrún með pálmann í höndunum frá slíkum átökum.

Í prófkjörsbaráttunni var beitt öllum ráðum af hálfu stuðningsmanna Heiðu Bjargar til að gera hlut Péturs Marteinssonar sem verstan. Honum var núið um nasir að hafa ekki gert nægilega grein fyrir fasteigna- og fjármálasamskiptum við borgina vegna lóða við enda flugbrautar í Skerjafirði.

Í því máli er frekari tiltektar þörf. Heiða Björg segir að rannsókn á því fari fram í ráðhúsinu. Hún ber ábyrgð á því sem borgarstjóri að kjósendum verði gerð grein fyrir niðurstöðu rannsóknarinnar í tæka tíð fyrir kosningarnar í maí.

Pétur Marteinsson verður að taka mun einarðlegri afstöðu til manna og málefna en til þessa. Hann endar annars aðeins sem peð í valdatafli í Samfylkingunni án þess styrks sem forystumaður verður að sýna. Góður árangur hans í prófkjörinu þrátt fyrir veikan málflutning og óljósa stefnu staðfestir enn frekar hve aum staða Heiðu Bjargar var.