21.5.2021 9:14

Pawel vill þyrluna í Hvassahraun

Af orðum formanns skipulagsráðs Reykjavíkur verður ekki annað séð en flugrekstur LHG í Reykjavík sé í óþökk stjórnenda borgarinnar.

Skipulagsákvarðanir sveitarfélaga mótast af pólitískri stefnu þeirra sem fara með stjórn hverju sinni. Á þessu kjörtímabili hafa Reykvíkingar kynnst harðri andstöðu meirihluta borgarstjórnar gegn einkabílnum. Beitt er öllu ráðum til að minnka svigrúm bíleigenda í anda þeirra sem vilja bíllausan lífsstíl. Hér gengur þetta einfaldlega þvert á ríkjandi viðhorf og vilja borgaranna eins og birtist í lítilli notkun á strætisvögnum. Þá þykir í fjölmiðlamönnum fréttnæmt að hitta einstaklinga sem fara ferða sinna á reiðhjólum eins og frásagnir sýna.

GKO16IRF3Viðreisnarmaðurinn Pawel Bartoszek, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur.

Bíllausi lífsstíllinn verður seint almennur hér á landi sama hvernig píratar hamast gegn honum í borgarstjórn Reykjavíkur með fúkyrðum í garð andstæðinga sinna. Formannsskipti urðu í skipulagsráði Reykjavíkurborgar, píratinn vék fyrir Pawel Bartoszek, borgarfulltrúa Viðreisnar. Pawel var í fréttum á dögunum þegar hann sat á forsetastóli á borgarstjórnarfundi og lét átölulaust þótt píratinn Dóra Björt Guðjónsdóttir notaði ræðutíma um ársreikninga borgarinnar til að fá útrás fyrir óvild sína í garð Sjálfstæðisflokksins.

Í Morgunblaðinu í dag (21. maí) er frétt um að skipulagsráðsformaðurinn Pawel vísi stjórnendum landhelgisgæslunnar (LHG) á Hvassahraun þegar farið er fram á aukið rými fyrir gæsluna við Reykjavíkurflugvöll svo að unnt sé hýsa þyrlur og flugvél LHG. Í blaðinu er þetta svar Pawels birt:

„Eðli málsins samkvæmt er flugvöllurinn því víkjandi í skipulaginu. Það þýðir að gert er ráð fyrir að hann færist á annan stað og þar með að starfsemi tengd honum (eins og aðstaða fyrir þyrlur og flugvélar Gæslunnar) geri það einnig. Það er því okkar skoðun að rétt sé að beina framtíðaruppbyggingu Gæslunnar annað (t.d. á Hvassahraun sem er sá staður sem helst kemur til álita varðandi nýjan flugvöll).“

Oft hefur verið rætt um að flytja starfsemi LHG til Reykjanesbæjar, þar eru hafnir og flugvöllur. Af orðum formanns skipulagsráðs Reykjavíkur verður ekki annað séð en flugrekstur LHG í Reykjavík sé í óþökk stjórnenda borgarinnar. Pawel fær sig ekki til að nefna aðstöðu á Keflavíkurflugvelli og Reykjanesbæ í anda hálfsannleiks og blekkinga meirihlutans en bendir gæslunni þess í stað á Hvassahraun! Hann svarar einfaldlega út í hött þegar við honum blasir brýnt erindi frá LHG sem krefst tafarlausrar úrlausnar.

Alkunna er að Viðreisn, flokkur Pawels, lifir í öðrum heimi þegar rætt er um krónuna, stöðu Íslands gagnvart ESB, sjávarútveg og landbúnaðarmál. Á meðan flokkurinn fær engin ítök í landstjórninni eru þessar æfingar hans eins og hver önnur loftkastalasmíði. Í borgarstjórn standa Pawel og félagar á hinn bóginn frammi fyrir raunverulegum úrlausnarefnum. Í þessu tilviki snertir það framtíð helstu öryggisstofnunar sjómanna og raunar þjóðarinnar í heild – og þá er svarað út í hött.

Píratar vilja einkabílinn af götum Reykjavíkurborgar. Viðreisn vill landhelgisgæsluna af Reykjavíkurflugvelli og grefur undan öryggi björgunartækja hennar. Borgarstjóri Samfylkingarinnar er aðeins til viðtals um „góðu málin“, þó ekki braggann sem borgin endurnýjaði fyrir tæpan hálfan milljarð við hliðina á athafnasvæði LHG sem nú á að loka.