24.8.2023 9:03

Pawel og No borders

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur lagði blessun sína yfir No borders-tjaldbúðirnar á Austurvelli 2019.

Þeir sem nú hallmæla því mest að hert sé á aðgerðum í því skyni að samstilla útlendingalög hér við lög nágrannalandanna taka margir þann undarlega pól í hæðina að ávíta Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa stjórnað útlendingamálum undanfarin ár. Ástandið núna sé honum að kenna!

Talsmenn andstöðuflokka sjálfstæðismanna hafa árum saman sótt gegn Sjálfstæðisflokknum fyrir að vilja sporna af of mikilli hörku gegn ólöglegri komu fólks til landsins, þeir hafa verið hallir undir sjónarmið No borders samtakanna, öfgamanna gegn landamærum.

Félagar í No borders fengu í mars 2019 leyfi frá Reykjavíkurborg til þess að tjalda í mótmælaskyni á Austurvelli. Ætluðu tjaldbúar að halda til á Austurvelli þar til stjórnvöld væru tilbúin að „opna samtal við þau um þær kröfur sem þau hafa lagt fram,“ sagði á vefsíðu Fréttablaðsins miðvikudaginn 13. mars 2019. Áður hafði þessi hópur ráðist á lögregluna á Austurvelli.

54018130_10219474841244640_8797623267515957248_n_1692867634688Ágúst H. Bjarnason tók þessa mynd á Austurvelli 17. mars 2019 og sýnir hún aðsetur No borders- fólksins sem þá bjó þar um sig með leyfi borgrarstjórnar. Myndin birtist á FB-síðu Ágústs.

Árið 2019 varð Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur og einn þeirra sem lagði blessun sína yfir No borders-tjaldbúðirnar á Austurvelli til að brjóta of stranga útlendingastefnu ríkisstjórnarinnar á bak aftur.

Nú segir þessi sami Pawel á Facebook að ástand útlendingamála sé alfarið Sjálfstæðisflokknum að kenna og spyr: „Voru Sigga Andersen, Áslaug Arna eða Jón Gunnarsson öll í vasanum á No Borders samtökunum? Þvílíkur og annar eins ábyrgðaflótti og vesælingsháttur.“

Pawel veit vel hverjir voru í vasa No borders og leyfðu tjaldbúðirnar á Austurvelli til að stuðla að því ástandi sem ríkir í útlendingamálum. Hvers kyns pólitískum þrýstingi var beitt til að hindra framgang breytinga á útlendingalögunum. Viðreisnarmaðurinn í meirihluta borgarstjórnar 2019 slóst þar í lið með Pírötum og öðrum No borders-liðum eins og Viðreisnarþingmaðurinn Sigmar Guðmundsson gerir á alþingi núna.

Pawel náði ekki endurkjöri í borgarstjórn árið 2022 þannig að sjónarmið hans njóta sín ekki lengur á sama hátt innan meirihlutans þar og þegar hann sat í forsæti borgarstjórnar. Nú segir hann á Facebook:

„Og ef að hraungjótur, húsasund og gistiskýli byrja að fyllast af heimilislausu fólki þá verður það heldur ekki skrifað á einhver No Borders samtök, sjálfboðaliða eða pólitíska andstæðinga. Heldur stjórn þessa lands.“

Hann ber sem sagt enn blak af No borders samtökunum og er ef til vill enn þeirrar skoðunar að heimila eigi þeim að tjalda á Austurvelli yfir þá sem neita að fara að íslenskum lögum.

Það er sorglegt að sjá menn tapa eins illilega áttum í útlendingamálum og Pawel Bartoszek, málsvari Viðreisnar, hefur gert í von um pólitískan frama í skjóli Pírata og Samfylkingarinnar. Þetta þríeyki Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar á of stór spor í útlendingamálum til að þau verði falin með gagnrýni á aðra fyrir að standa gegn þeim, þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn staðið fremstur.