Pawel og lóðaskorturinn
Hildur Björnsdóttir oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn brást snarlega við þessum orðum Pawels og sagði sama sunnudag á FB-síðu sinni að hann færi með rangt mál.
Í sjónvarpsumræðum að kvöldi föstudagsins 1. nóvember sagðist Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar stolt af aðild flokks síns að meirihluta borgarstjórnar frá árinu 2018. Þar hefur flokkurinn meðal annars staðið að fjármálastjórn með falleinkunn, stöðnun vegna ákvarðanafælni og lóðaskorti vegna stefnu í skipulagsmálum.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra vék að lóðaskortsstefnunni í umræðuþættinum og sagði:
„Við horfum upp á það núna að Kópavogur og Reykjavíkurborg eru í ágreiningi um vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins. Þetta er auðvitað ekki boðlegt. Það er land sem er til reiðu og hægt að byggja á, en Reykjavíkurborg neitar og vill stunda meiri þéttingu.“
Pawel Bartoszek sat í borgarstjórn fyrir Viðreisn 2018 til 2022 og var meðal annars formaður umhverfis- og skipulagsráðs. Það var hann sem sagði við landhelgisgæsluna að hún fengi ekki að bæta við flugskýli á athafnasvæði sínu á Reykjavíkurflugvelli, þyrlur gætu athafnað sig á flugvellinum í Hvassahrauni! Pawel atti kappi við pírata og Hjálmar Sveinsson, hugmyndafræðing Samfylkingarinnar, um þéttsýni í skipulagsmálum. Hann náði ekki kjöri í borgarstjórn árið 2022. Nú skipar Pawel 2. sæti á framboðslista Viðreisnar í Reykjavík norður.
Pawel sá sig knúinn til að amast við ummælum Bjarna um lóðaskortinn og sagði á bloggsíðu sinni sunnudaginn 3. nóvember að forsætisráðherra hefði eitthvað ruglast á sveitarfélögum. Það hefðu ekki komið neinar formlegar óskir frá Kópavogi um stækkun vaxtarmarka sem Reykjavíkurborg hefði tekið fyrir og neitað.
Í landi Kópavogs í Gunnarshólma við Suðurlandsbraut er unnt að skipuleggja 7.500 manna íbúðabyggð. Meirihlutinn í Reykjavík bregður fæti fyrir áformin. Hann vill takmarka vöxt á höfuðborgarsvæðinu (mynd: Kópavogur.is).
Hildur Björnsdóttir oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn brást snarlega við þessum orðum Pawels og sagði sama sunnudag á FB-síðu sinni að hann færi með rangt mál. Hildur benti á eftirfarandi:
Í upphafi árs birti bæjarstjórn Kópavogs viljayfirlýsingu um íbúðabyggð í Gunnarshólma, svæði utan skilgreindra vaxtarmarka höfuðborgarsvæðisins, fyrir norðan Suðurlandsveg að Lækjarbotnum. Formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, píratinn Dóra Björt Guðjónsdóttir, andmælti þessum áformum strax opinberlega. Þau væru ótæk utan vaxtarmarka, það ætti að halda sig innan skilgreindra þéttbýlisreita. Reykjavíkurborg samþykkti ekki beiðni um útvíkkun vaxtarmarka vegna íbúðabyggðar í Gunnarshólma.
Í haust snerist Samfylkingin svo gegn tillögu sjálfstæðismanna í borgarstjórn um tilfærslu vaxtarmarka til að fjölga lóðum í Reykjavík undir íbúðabyggð. Viðreisn studdi Samfylkinguna ásamt framsóknarmönnum og pírötum.
Bjarni nefndi lóðaskortinn þegar rætt var um lækkun verðbólgu og vaxta. Lóðaskorturinn á höfuðborgarsvæðinu væri meðal stærstu verðbólguvalda. Meirihlutaflokkarnir í Reykjavík segjast vera á móti verðbólgu en ýta undir hana með skortstefnunni í lóðamálum. Pawel ætti að átta sig á að það er auðveldara að hverfa frá henni en að taka upp evru.