8.9.2023 9:56

Parísarhjól og Perlusala

Tvennt nefndi borgarstjóri til að draga athygli almennings frá þessu ranga mati á þróun fjármála borgarinnar: (1) Parísarhjól og (2) Perluna.

Fræg er sagan úr bresku ráðuneyti 11. september 2001 þegar hryðjuverkaárásin var gerð á tvíburaturnana í New York og varnarmálaráðuneytið í Washington.

Óvinsælt mál var til úrvinnslu í ráðuneytinu og sótti kvíði að embættismönnum þegar þeir hugleiddu hvernig ætti að tilkynna niðurstöðuna opinberlega. Þegar öll athygli beindist að fréttum vegna ódæðisverkanna datt upplýsingafulltrúa í hug að nú ætti að segja frá óvinsælu stjórnvaldsaðgerðinni, enginn tæki eftir tilkynningunni.

Sagan kemur í hugann þegar hlustað er á það sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafði til málanna leggja fimmtudaginn 7. september þegar birt var fréttin um að rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar væri tæplega 13 milljörðum króna lakari en áætlað hafði verið. Borgarstjóri hafði gert ráð fyrir að reksturinn yrði jákvæður um 6 milljarða en hann var neikvæður um 6,7 milljarða króna.

Tvennt nefndi borgarstjóri til að draga athygli almennings frá þessu ranga mati á þróun fjármála borgarinnar: (1) Parísarhjól og (2) Perluna.

1437077Þegar horfur í resktri Reykjavíkurborgar eru dökkar kynnir borgarstjóri Parísarhjól til sögunnar (samsett mynd mbl.is).

Undanfarin ár hefur borgarstjóri staðið fyrir því að dýrustu íbúðir og helsta lúxushótel landsins risu við gömlu höfnina. Þegar við blasir gífurlegur fjárhagsvandi borgarsjóðs boðar borgarstjórinn tilraunarekstur Parísarhjóls á Miðbakka í hjarta gömlu hafnarinnar í miðborginni til að stuðla að „haftengdri upplifun“.

Í tilkynningu kom fram að mikil vinna væri fram undan við nauðsynlega greiningu enda fylgdu „umtalsverð flækjustig“ framkvæmdinni. Engu að síður taldi Dagur B. þetta rétta daginn til að flagga með Parísarhjólinu. Að sjálfsögðu var tekið fram að framkvæmdin yrði „án fjárútláta borgarinnar eða Faxaflóahafna“.

Hitaveita Reykjavíkur byggði Perluna og var hún opnuð árið 1991. Reykjavíkurborg keypti Perluna árið 2013 og síðar tvo vatnstanka af Orkuveitu Reykjavíkur. Nú er það liður í að auka traust lánardrottna á greiðslugetu borgarinnar að selja Perluna.

Einkaaðilar hafa virkjað straum ferðamanna í Perluna með ýmsum ráðum og í samvinnu við opinbera aðila. Þar er nú mikið líf og fjör á meðan ferðamenn eru á ferli. Um tíma voru þar „aparóla“ og loftkastalar auk gervihvers. Allt er þetta úr sögunni, ferðamenn eru þó enn að leita að hvernum.

Gönguleiðir að Perlunni eru ómerktar og oft má hitta vegvillta á leið þangað. Reykjavíkurborg hefur látið ryðja svonefnda Perlufesti í gegnum trjágróður í Öskjuhlíð án þess að lokið sé við það verk á sómasamlegan hátt. Er ekki vafi á að einkaaðilar munu huga betur að Perlunni og umhverfi hennar en borgin hefur gert, ætti að fela þeim gegn gjaldi alla umhirðu í Öskjuhlíðinni og grisjun skógarins í þágu flugöryggis, við það minnkaði flækjustigið umtalsvert.

Hver er skýringin á hallarekstri borgarinnar? Aukinn stuðningur við börn af erlendum uppruna ásamt háu veikindahlutfalli og uppsöfnuð orlofstaka starfsfólks sem kallar á aukna mönnun, segir borgarstjóri. Við þessu á að bregðast með Parísarhjóli og sölu á Perlunni.