15.3.2018 10:29

Pappírslaus landsfundur - hamingjuskýrsla - Pútín

Landsfundur sjálfstæðismanna sem hefst á morgun, föstudag 16. mars, er kynntur fundarmönnum sem pappírslaus fundur.

Landsfundur sjálfstæðismanna sem hefst á morgun, föstudag 16. mars, er kynntur fundarmönnum sem pappírslaus fundur. Verður spennandi að sjá hvernig til tekst að þessu sinni. Á árum áður var pappírsflóðið í Laugardalshöll mikið og oft erfitt að henda reiður á því öllu. Nú eru textar að ályktunum kynntir fyrir fundinn og unnt að gera athugasemdir eða koma með ábendingar áður en fundurinn er settur. Eftir að menn koma saman í Laugardalshöllinni er farið yfir texta sameiginlega með því að lesa þá með aðstoð skjávarpa á tjaldi.

Málefnanefndir Sjálfstæðisflokksins eru átta jafnmargar og nefndir alþingis og bera sömu nöfn og þær. Nefndirnar starfa undir sérstökum stjórnum. Þær eru kosnar rafrænni kosningu á landsfundinum. Framboðsfrestur er útrunninn og hafa nöfn frambjóðenda verið kynnt á netinu. Alls bárust 196 framboð í nefndirnar átta frá 133 flokksmönnum. Fimm manns eru í stjórn hverrar nefndar þannig að 40 af þessum 196 verða kjörnir í stjórnirnar. Formenn nefnda verða þeir sem fá flest atkvæði í rafrænu kosningunni. Kosið er frá kl. 12:00 föstudaginn 16. mars til kl. 11:00 sunnudaginn 18. mars. Þurfa fulltrúar að hafa nafnspjald sitt á fundinum meðferðis til að geta greitt atkvæði rafrænt. „Eru landsfundarfulltrúar hvattir til að kjósa snemma til að komast hjá örtröð,“ segir í tilkynningu frá flokksskrifstofunni.

Fróðlegt er að bera þessar tölur og skipulagið allt saman við það sem var á landsþingi Viðreisnar. Þaðan var ekki unnt að fá upplýsingar um fjölda þinggesta nema eftir að höfðað var til grunnstefnu Viðreisnar um opna stjórnmálastarfsemi og leyndarhyggja flokksforystunnar hafði sætt gagnrýni. Þegar loks voru gefnar upp tölur var því hampað að 100 manns hefðu óskað eftir skráningu á landsþingið. Það tóku hins vegar aðeins 66 þátt í atkvæðagreiðslu um formann og varaformann – fékk formaðurinn 61 atkvæði. Ólíklegt er að sá atkvæðafjöldi dugi til að ná kjöri í stjórn einhverrar málefnanefndar Sjálfstæðisflokksins.

Þegar rennt er yfir listann yfir frambjóðendur í málefnanefndirnar sést að áhuginn er mestur á að komast í atvinnuveganefnd annars vegar og umhverfis- og samgöngunefnd hins vegar en allsherjar- og menntamálanefnd og velferðarnefnd skora einnig hátt.

*

Nú hefur svonefnd heimshamingjuskýrsla Sameinuðu þjóðanna verið birt. Finnar eru hamingjusamastir, Norðmenn nr. 2,  Danir nr. 3 og Íslendingar nr. 4., Svisslendingar nr. 5. Svíar skipa 9. sæti á listanum.

Nú er spurning hvort fréttastofa ríkisútvarpsins birti frétt um að Svíar séu óhamingjusamasta Norðurlandaþjóðin og gefi þar með til kynna að þær séu allar óhamingjusamar eins og þegar sagt var að Íslands væri „spilltast Norðurlandanna“ þótt allar þjóðirnar séu með óspilltustu þjóða heims.

*

Að kynna forsetakosningarnar í Rússlandi sunnudaginn 18. mars á þann veg að um raunverulegt lýðræðislegt fyrirkomulag sé að ræða er ekki annað en aðför að heilbrigðri skynsemi. Pútín hefur látið kippa öllum bitastæðum keppinautum úr umferð. Niðurstaðan er öllum ljós fyrir löngu. Spurningin er hve mörgum verður smalað á kjörstað. Þeirri kenningu hefur verið hreyft að Pútín hafi skipulagt eiturefnaárásina í Salisbury til að espa bresk stjórnvöld og þannig fengið nýja átyllu til að hræða fávísa rússneska kjósendur  og hvetja þá til að fylkja sér um „sterka manninn“ sem verndar föðurlandið.