27.12.2018 12:16

Óvissa vegna Brexit – festa vegna veiðigjalda

Það má því segja að um áramótin ríki nokkur óvissa út á við í íslenskum sjávarútvegi en inn á við viti menn betur hvar þeir standa.

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins er í dag (27. desember) rætt við dr. Jón Þránd Stefánsson, yfirmann greininga hjá Sea Data Center, um stöðu íslensks sjávarútvegs um áramótin.

Hann staðfestir það sem fyrir hefur legið að með innflutningsbanni á sjávarafurðum hefur Vladimir Pútín Rússlandsforseti neytt Rússa til að taka sig á í veiðum og vinnslu sjávarafurða. „Rússarnir eru ekki bara að fjárfesta í nýjum skipum heldur eru þeir einnig að efla landvinnslu sína. Ef horft er fram á veginn gætum við séð Rússland sem mjög sterkan samkeppnisaðila á sumum af þessum stærstu mörkuðum í Evrópu,“ segir Jón Þrándur. Íslensk hátæknifyrirtæki hafa selt búnað til Rússlands til að auðvelda Rússum þessi umskipti í sjávarútvegi sínum.

543910Jón Þrándur nefnir óvissu vegna úrsagnar Breta úr ESB. Íslenskur fiskur er fluttur til vinnslu í Grimsby og Hull og þaðan til sölu bæði í Bretlandi og á meginlandi Evrópu. Hver verða áhrif Brexit? Annars vegar á útflutning frá Bretlandi til meginlandsins og á gengi pundsins. Lækki það kann áhugi íslenskra fiskútflytjenda að beinast annað.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, forstjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir einnig í sama tölublaði Morgunblaðsins:

„Það kann að henta til heimabrúks í pólitískri umræðu að reyna að sannfæra fólk um að verið sé að hlunnfara það. En neikvæð umræða um íslenskan sjávarútveg er bæði lýjandi og ósanngjörn. Íslenskur sjávarútvegur er einstakur á heimsvísu. Engin önnur atvinnugrein á Íslandi hefur líka stöðu. Þannig hefur fiskveiðistjórnunarkerfið skilað þjóðarbúinu miklum ábata, langt umfram það sem aðrar þjóðir geta státað af. Við þurfum stundum að minna okkur á þessa eftirsóknarverðu stöðu, því hún er síst af öllu sjálfgefin.“

Þetta er rétt og sáttin um fiskveiðistjórnunarkerfið er nú meiri en áður. Fyrir skömmu, 11. desember 2018, náðist mikilvæg sátt um framkvæmd þess á alþingi með nýjum lögum um veiðigjöld.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, leiddi málið í gegnum þingið sem formaður atvinnuveganefndar þess. Á 13 fundi nefndarinnar um málið komu rúmlega 100 gestir. Tæplega 50 umsagnir bárust nefndinni. Sjálfstæðismaðurinn Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, efndi til kynningarfunda um land allt.  Í áliti meirihluta nefndarinnar segir:

„Við meðferð málsins kom fram almenn ánægja með breytta aðferðafræði við útreikning veiðigjalds, að það verði byggt á upplýsingum sem eru nær í tíma og að ríkisskattstjóri sé sá aðili sem hafi ríkan aðgang að gögnum og/eða heimildir til að biðja um viðeigandi upplýsingar.“

Með hliðsjón af áralöngum deilum um kvóta og veiðigjöld má ætla að afgreiðsla þessa frumvarps marki tímamót. Það má því segja að um áramótin ríki nokkur óvissa út á við í íslenskum sjávarútvegi en inn á við viti menn betur hvar þeir standa.