7.12.2025 11:49

Óvirðingin við alþingi

Forsætisráðherra eða aðrir fyrir hönd menntamálaráðherra sýndu forseta þingsins og þar með þingheimi öllum þá óvirðingu að tilkynna ekki formlega um forföll Guðmundar Inga fyrir upphaf þingfundar.

Ólíklegt er að ríkisstjórn og ráðherrar hafi áður ratað inn á villigötur á sama hátt og gerst hefur á því tæpa ári sem liðið er frá því að Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir leiddu Flokk fólksins til valda 21. desember 2024.

Vandræðin sem við blasa á alþingi endurspegluðust í blótsyrðunum sem Þórunn Sveinbjarnardóttir þingforseti lét falla um þingmenn þegar hún strunsaði úr forsetastóli föstudaginn 5. desember eftir að hafa skyndilega gert hlé á umræðum um fundarstjórn forseta. Kallaði hún þingflokksformenn á sinn fund og las yfir þeim eitthvað sem þeir segja trúnaðarmál en fréttir herma að þeir hafi verið orðlausir.

Daginn áður gerðist sá atburður að í upphafi þingfundar var ekki tilkynnt formlega um veikindaforföll Guðmundar Inga Kristinssonar, mennta- og barnamálaráðherra. Í lögum um þingsköp alþingis segir að þingmönnum sé skylt að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skuli tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og meti hann nauðsynina.

1107331Inga Sæland og Guðmundur Ingi Kristinsson. Forsætisráðherra ber fullt traust til þeirra sem ráðherra (mynd: mbl.is).

Forsætisráðherra eða aðrir fyrir hönd menntamálaráðherra sýndu forseta þingsins og þar með þingheimi öllum þá óvirðingu að tilkynna ekki formlega um forföll Guðmundar Inga fyrir upphaf þingfundar og neyddist Þórunn Sveinbjarnardóttir til að segja á forsetastóli: „Forseta þykir miður að hafa ekki vitað af þeim [forföllunum] áður en þessi fundur hófst. Það eru vissulega ekki góð vinnubrögð, ég tek undir þau orð þingmanna.“

Í ræðu gaf Kristrún Frostadóttir furðulega skýringu á virðingarleysinu fyrir forseta þingsins. Yfirlýsingin ber vott um reynslu- og þekkingarleysi hennar og raunar allra annarra sem eiga að gæta lögbundinna formsatriða forfallist ráðherra. Kristrún sagði:

„Við vissum ekki þegar við komum inn í þennan þingsal í morgun og í [umræður um] fundarstjórn að þetta [uppsögn skólameistarans í Borgarholtsskóla] yrði til umræðu með þessum hætti. Það er ekki um alvarlegt mál að ræða, ég vil bara að það komi fram svo að það sé ekki óþarfa dramatík um stöðu ráðherra. En það er vissulega svo að hann þurfti að fara á spítala í nokkra daga. Það er búið að gera mjög eðlilegar ráðstafanir vegna þess“

Þessar mjög eðlilegu ráðstafanir fólu ekki í sér formlega tilkynningu um forföll fyrir upphaf þingfundar. Forföll ráðherrans komu þingforseta og þingmönnum því í opna skjöldu. Þau bar að tilkynna án tillits til þess sem rætt yrði á þingi.

Forsætisráðherra skýtur sér að jafnaði undan að svara erfiðum spurningum efnislega. Hún viti ekki um efni símtals ráðherra og skólameistara um týnda skó. Hún viti það eitt að fleiri skólameistarar framhaldsskóla muni lenda í sömu stöðu og skólameistarinn í Borgarholti. Skólameistarinn á Egilsstöðum heyrði það síðan í útvarpsfréttum að staða sín yrði auglýst!

„Ég ber fullt traust til mennta- og barnamálaráðuneytisins og hæstv. ráðherra. Þetta mál hefur ekkert að gera með hvað er í gangi í ráðuneytinu. Þetta er faglega ákvarðað,“ sagði Kristrún á þingi 4. des. Áður hafði hún lýst trausti á Ingu Sæland – en skyldi Kristrún treysta þingforsetanum orðljóta?