22.11.2025 10:42

Óvinir Þórdísar Kolbrúnar

Vegna samstöðu sinnar með Úkraínumönnum og trúverðugra lýsinga á glæpaverkum Rússa sætir Þórdís Kolbrún ofstækisfullum árásum hér frá stuðningsmönnum Pútins.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fyrrv. utanríkisráðherra, fylgist betur með gangi mála í Úkraínu og stríði þjóðarinnar við Rússa en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður. Hún er í náinni snertingu við svartasta blettinn á framgöngu Rússa: brottnámi þeirra á tugþúsundum barna frá svæðum sem þeir hafa hernumið. Börnin eru flutt nauðug frá heimabyggð sinni inn í Rússland. Athæfið minnir á lýsingar í bókinni Helförinni, sem kom hér á markað fyrir skömmu, og fyrir það hefur Vladimir Pútin sætt ákæru fyrir stríðsglæp.

Vegna samstöðu sinnar með Úkraínumönnum og trúverðugra lýsinga á glæpaverkum Rússa sætir Þórdís Kolbrún ofstækisfullum árásum hér frá stuðningsmönnum Pútins, hann sé meira að segja sérstakur boðberi kristinnar trúar. Pútin hefur til stuðnings morðæði sínu hallað sér mjög að rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni og gert vanheilagt bandalag við æðstu menn þeirra.

Screenshot-2025-11-22-at-10.40.33Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir í sjónvarpsviðtali.

Slíkt bandalag alræðisstjóra og kirkjuhöfðingja boðar aldrei gott og birtist nú á tímum best í kúgunarríkjunum Rússlandi og Íran sem bæði beita hervaldi gegn þeim sem þau telja standa í vegi fyrir sér: Pútin gegn Úkraínu og ajatollarnir gegn Ísrael.

Þegar Þórdís Kolbrún skipaði sér við hlið Vladimirs Zelenskíj Úkraínuforseta föstudaginn 21. nóvember og gagnrýndi sem afarkosti það sem Donald Trump setti honum í vikunni með drögum að friðarsamkomulagi umturnast andstæðingar hennar.

Þar má nefna Þröst Jónsson, rafmagnsverkfræðing sem situr í sveitastjórn Múlaþings fyrir Miðflokkinn. Hans var getið í fréttum í október þegar hann kærði ásamt félögum sínum í kristna trúfélaginu Gömlu göturnar vegferð íslensku þjóðkirkjunnar til kirkjunefndar. Kirkjuþing vísaði kærunni frá meðal annars með þeim orðum að kæruefnið virtist fremur endurspegla sýn kvartanda á trúariðkun en nánar afmörkuð ágreiningsefni er varða kirkjulegt starf og starfsemi á vegum kirkjunnar.

Þröstur hefur lengi farið mikinn á Facebook-síðu sinni til stuðnings Pútin. Í dag (22. nóv.) fer hann hörðum orðum um Þórdísi Kolbrúnu og segir hana í „algjörri afneitun“ vegna stríðsins í Úkraínu sem Rússar séu að vinna. Rússar, sigurvegarinn, beiti taparann, Vesturlönd, nauðung. Þröstur segir:Nei Kolbrún, ef þetta samkomulag næst í höfn, þá eru bjartari tímar framundan þar sem hrokafullt vinstra-glóbalíserað, guðlaust, ósamvinnuþýtt og "rússófóbískt" fólk sem metur mannslíf einskis eins og þú missið völdin í Evrópu og er það vel.“

Séu færslur Þrastar á Facebook lesnar má álykta að hann sé einlægur stuðningsmaður Snorra Mássonar, nýkjörins varaformanns Miðflokksins og helstu vonarstjörnu hans. Snorri fer gjarnan mikinn í málflutningi sínum og vekur þjóðarathygli fyrir skoðanir sínar. Forvitnilegt væri að vita, og í raun nauðsynlegt, hvort skoðanir Snorra og Þrastar falli saman þegar stríðið í Úkraínu ber á góma.

Miðflokkurinn á að mörgu leyti hugmyndafræðilega samleið með flokkum í Evrópu sem draga að sér mikið fylgi og stuðning vegna stefnu sinnar í útlendingamálum og stefnunnar sem kennd er við orðið remigration, endurflutning, ber æ oftar á góma í sambandi við stefnu flokkanna. Þeir hafa einnig verið taldir hallast að andstöðu við stuðning við Úkraínumenn í stríðinu við Rússa.

Nigel Farage er leiðtogi svona spútnikflokks í Bretlandi og nú er spáð að breski Íhaldsflokkurinn fengi aðeins 14 þingmenn af 650 á breska þinginu yrði kosið í dag. Á vefsíðu The Spectator sagði kvöldið 21. nóvember:

„Nigel Farage hefur átt betri síðdegi. Nathan Gill, fyrrverandi leiðtogi Reform UK í Wales, var dæmdur í tíu og hálfs árs fangelsi eftir að hafa játað að hafa þegið mútur fyrir að veita viðtöl hliðholl Rússum og halda ræður Rússum til framdráttar. Talið er að þessi fyrrverandi ESB-þingmaður Brexit-flokksins hafi fengið samtals allt að 40.000 pund fyrir að aðstoða stjórnmálamenn í Úkraínu sem eru í liði með Kremlverjum.“

Við lifum undarlega tíma og eigum rétt á því að stjórnmálamenn og flokkar gangi fram af hreinskilni og lýsi skoðunum á málefnum sem snerta þjóðaröryggi undanbragðalaust.