7.10.2022 11:57

Óvild í garð Dana

Líklega hefði engum af dönsku stjórnmálaflokkunum 14 dottið í hug að setja þær á lista sinn í kosningunum 1. nóvember vegna skoðana sem þær reifa í mbl-samtalinu.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, láta í samtali við mbl.is í dag (7. okt.) eins og erindi þeirra í kynnisferð allsherjar- og menntamálanefndar alþingis til Danmerkur á dögunum hafi verið að upplýsa viðmælendur sína um mannréttindabrot þeirra á hælisleitendum.

Líklega hefði engum af dönsku stjórnmálaflokkunum 14 dottið í hug að setja þær á lista sinn í kosningunum 1. nóvember vegna skoðana sem þær reifa í mbl-samtalinu. Þar staðfesta þær hvers vegna Ísland skapar sér sérstöðu í útlendingamálum meðal Norðurlanda og almennt í Evrópu.

Umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi á þessu ári voru orðnar 2.894 þann 28. september síðastliðinn. Frá árinu 2015 voru þær næstflestar árið 2016 eða 1.135 allt árið og 1.096 árið 2017, segir í Morgunblaðinu í dag og einnig:

Alls var samþykkt 2.121 umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi á fyrstu átta mánuðum ársins 2022. Það gerir 5,56 samþykktar umsóknir á hverja þúsund íbúa landsins sem er töluvert hærra hlutfall en annars staðar á Norðurlöndum á sama tímabili. Munar heilum 27,6% milli Noregs og Íslands, en það er jafnframt mesti munurinn.

GDM181FR0.1_1296072Þessi skýringamynd á þróun innflyjendamála birtist í Morgunblaðinu 7. október 2022.

„Það var eiginlega stóra sjokkið í ferðinni að mínu mati hvað manni fannst Danirnir hafa lítið pláss fyrir mannúð í þessum málaflokki,“ segir Helga Vala Helgadóttir við mbl.is.

Helga Vala og Arndís Anna virðast einkum hneykslaðar á því að í Danmörku skoði yfirvöld farsíma hælisleitenda til að sannreyna frásagnir þeirra. Reynslan sýnir að hælisleitendur fara oft vísvitandi með rangt mál þegar þeir segja eigin sögu eða upplýsa um aldur sinn. Upplýsingar í farsíma kunna að auðvelda yfirvöldum að komast að hinu sanna. Þeir sem telja það hælisleitendum til framdráttar að blekkja yfirvöld landsins, þar sem þeir sækja um hæli, vilja að sjálfsögðu auðvelda þeim blekkingariðjuna.

Við rannsóknir af þessu tagi kemur einnig oft í ljós hvernig staðið er að för fólksins. Evrópulögreglan, Europol, hefur upplýst að í miklum meirihluta tilvika sé um skipulagða glæpastarfsemi að ræða, hún gefi jafnvel meira í aðra hönd en smygl á fíkniefnum.

Hér voru opnaðar dyr fyrir hælisleitendum frá Venesúela sem þeim eru ekki opnar annars staðar og nú er látið eins og ekki sé unnt að loka þeim.

Helga Vala stendur í þeirri trú að fólk frá Venesúela komi hingað beint „að vestan“ og „af því að millilendingin er í Keflavík og þá fer fólk út úr vélinni og sækir um hæli,” segir hún. Staðreynd er að fólkið kemur hingað um Spán. Þetta virðist þingmaðurinn ekki vita þótt hún segist hafa frætt fávísa danska þingmenn um gildi dóma MDE í Strassborg gagnvart þeim.

Arndís Anna segir um Dani: „Því miður fannst mér það einkenna allt þeirra tal um málaflokkinn, eins og það væri verið að bjarga dýrahjörð en ekki að taka á móti manneskjum.“

„Bjarga dýrahjörð“? Á hún þá við að Danir séu dýr sem ekki megi standa vörð á eigin landamærum? Ákveða hverjir fara yfir þau og gæta laga og réttar? Eða lítur hún á hælisleitendur sem bjargarlaus dýr? Hvort sem um er að ræða bera orðin vott um viðhorf fjarri veruleikanum.