Óvænt aðför að trúverðugleika Sigmundar Davíðs
Á mbl.is er endurvakin tortryggni meðal andstæðinga O3 og í aðdáendahópi Sigmundar Davíðs um hvort hann hafi gengið nægilega tryggilega frá afturköllun ESB-aðildarumsóknarinnar fyrri hluta árs 2015
Þriðji orkupakkinn (O3) er enn til annarrar umræðu á alþingi í dag, mánudaginn 20. maí. Miðflokksmenn ræddu málið hver við annan í mörgum ræðum og heila nótt í fyrri viku. Neikvætt tal þeirra og annarra um EES-samningin varð til þess að hópur ungs fólks tók sig saman og birti opnu-auglýsinguna sem hér sést í Fréttablaðinu í dag. Sama dag birtir Guðni Ágústsson, fyrrv. formaður Framsóknarflokksins, grein fjandsamlega EES í Morgunblaðinu.
Samhliða þessu er á mbl.is endurvakin
tortryggni meðal andstæðinga O3 og í aðdáendahópi Sigmundar Davíðs um hvort
hann hafi gengið nægilega tryggilega frá afturköllun ESB-aðildarumsóknarinnar
fyrri hluta árs 2015 þegar þeir félagarnir Sigmundur Davíð forsætisráðherra og
Gunnar Bragi utanríkisráðherra fóru með málið.
Uppi eru kenningar um samsæri embættismanna í því skyni að blekkja þá, þeir hafi ekki gert sér grein fyrir muninum á hvort Ísland væri candidate country eða applicant country. Báðir segjast þeir hafa verið í góðri trú um að þeir hafi dregið umsókn Íslands til baka. Víst er að enginn lítur á Ísland sem ESB-umsóknarríki nema ef til vill einhverjir í SDG-aðdáendahópnum. Þeir bera greinilega ekki fullt traust til leiðtogans sem segír í Morgunblaðinu í dag: „Frá mínum bæjardyrum séð er þetta alveg skýrt og ég fékk það staðfest á fundum mínum með bæði Juncker og Tusk að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki að Evrópusambandinu.“ Boðar Sigmundur Davíð að hann ætli að flytja tillögu til þingsályktunar til að fá stuðning annarra þingmanna við því að þessi skilningur hans sé réttur, Ísland sé ekki lengur ESB-umsóknarríki.
Þessi opnu-auglýsing birtist í Fréttablaðinu mánudaginn 20. mai.
Forvitnilegt verður að fylgjast með framvindu þessa máls. Engir vita betur hvernig það er vaxið en Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi. Þeir hafa heiður að verja gagnvart þeim samherjum sínum sem telja þá hafa verið beitta blekkingum. Þá er spurning hvort ætlunin sé að sanna að fyrir handvömm þeirra sé Ísland enn ESB-umsóknarríki.
Hér hefur í nokkrum pistlum verið rifjað upp hvernig staðið var að O3 í stjórnartíð Sigmundar Davíðs og Gunnars Braga þegar rétti tíminn var til að koma að fyrirvörum af Íslands hálfu áður en málið yrði að sameiginlegu EES-máli. Engir tilburðir voru í þá veru. Þvert á móti fékk O3 flýtimeðferð með lögfestingu hluta pakkans vorið 2015.
Þessi upprifjun hefur orðið til þess að í málþófi miðflokksmanna um O3 á alþingi hefur Sigmundur Davíð sakað mig um að hafa „sett af stað“ fráleitar samsæriskenningar um starfshætti hans og Gunnars Braga vegna O3. Í þingræðu 14. maí talaði formaður Miðflokksins um „handbók Björns Bjarnasonar“ og sagði orðrétt: „Það segir sína sögu um málefnarýrð þegar meira að segja formaður Samfylkingarinnar þarf að lesa upp úr handbók frá Birni Bjarnasyni...“
Hér vísar Sigmundur Davíð í það sem birst hefur hér á vefsíðunni um framgöngu hans. Það er sárasaklaust miðað við ásakanir um að hann hafi verið blekktur og ekki dregið ESB-aðildarumsókn Íslands til baka.
Skal viðurkennt að ekki hefur hvarflað að mér að draga í efa réttmæti þeirra orða Sigmundar Davíðs að Ísland sé ekki lengur ESB-umsóknarríki. Hvernig hefði hann brugðist við slíkri samsæriskenningu hér á síðunni?